Arsenal kom til baka og vann slaginn um Norður-London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leandro Trossard fagnar sigurmarki sínu í kvöld en það tryggði Arsenal 2-1 heimasigur á Tottenham.
Leandro Trossard fagnar sigurmarki sínu í kvöld en það tryggði Arsenal 2-1 heimasigur á Tottenham. Getty/ Justin Setterfield

Arsenal minnkaði forskot Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fjögur stig með 2-1 sigri á nágrönnum sínum í Tottenham í kvöld.

Arsenal komst upp fyrir Nottingham Forest og upp í annað sætið með sigrinum.

Arsenal var með öll völd í byrjun leiks en það var hins vegar Tottenham sem komst yfir í leiknum.

Arsenal náði hins vegar að svara með tveimur mörkum fyrir hálfleik og þau mörk tryggðu liðinu á endanum mikilvægan sigur.

Arsenal hefur verið með ágætt tak á nágrönnum sínum og hertu það enn frekar með sigrinum í kvöld.

Tottenham hefur aftur á móti ekki unnið í síðustu fimm deildarleikjum eða síðan um miðjan desembermánuð. Útlitið er ekki gott enda liðið nú komið niður í þrettánda sæti deildarinnar.

Heung-Min Son kom Tottenham í 1-0 á 25. mínútu með viðstöðulausu skoti eftir að boltinn datt fyrir hann við vítateigslínuna eftir hornspyrnu.

Jöfnunarmarkið var á endanum skráð sem sjálfsmark en Gabriel skallaði þá hornspyrnu Declan Rice í Dominic Solanke og inn.

Jöfnunarmarkið kom á 40. mínútu leiksins og fjórum mínútum síðar var Leandro Trossard búinn að koma Arsenal yfir.

Trossard fékk þá boltann frá Martin Ödegaard eftir hraða sókn og skoraði með skoti utarlega úr teignum.

Antonin Kinsky hafi haldið marki sínu hreinu í fyrstu tveimur leikjunum fyrir Tottenham en fékk þarna á sig tvö dýrkeypt mörk á síðustu fimm mínútunum í fyrri hálfleik.

Liðnunum tókst ekki að skora í seinni hálfleik en Pedro Porro átti skot í stöngina undir lok leiksins og var því nálægt því að krækja í stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira