Enski boltinn

Fyrir­liði Man United sendi Jóa Berg og fjöl­skyldu fal­lega gjöf

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinirnir Bruno Fernandes og Jóhann Berg Guðmundsson í leik Portúgals og Íslands í nóvember árið 2023.
Vinirnir Bruno Fernandes og Jóhann Berg Guðmundsson í leik Portúgals og Íslands í nóvember árið 2023. Alex Nicodim/Getty Images

Jóhann Berg Guðmundsson og Hólmfríður Björnsdóttir, eiginkona hans, fengu fallega gjöf frá Bruno Fernandes – fyrirliða Rauðu djöflanna – eftir að þau eignuðust sitt þriðja barn.

Þó Jóhann Berg sé að spila í Sádi-Arabíu í dag þá er fjölskylda hans enn búsett í Englandi þar sem hann spilaði um árabil. Þar fara börn hans í sama skóla og börn Bruno Fernandes og því eru þeir tveir ágætis félagar.

Jóhann Berg og Hólmfríður eignuðust dóttur fyrir skemmstu síðan, þeirra þriðja barn. Hefur hún fengið nafnið Svala. Að því tilefni ákváðu Bruno og fjölskylda að senda fallega gjöf til Jóhanns og Hólmfríðar.

Hólmfríður birti mynd af sér með gjöfina á Instagram og deildi Bruno myndinni í hringrásinni (e. story) á sinni eigin Instagram-síðu.

„Íslenska fjölskyldan okkar,“ sagði fyrirliði Man United einfaldlega með færslunni.

Færslan í heild sinni.Instagram

Man United hefur átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni en Fernandes skoraði eina mark liðsins í venjulegum leiktíma þegar liðið fór áfram eftir sigur í vítaspyrnukeppni gegn Arsenal í 3. umferð ensku bikarkeppninnar.

Alls hefur Portúgalinn skorað sjö mörk og gefið 10 stoðsendingar á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×