Havertz skúrkurinn þegar United fór á­fram

Leikmenn United fögnuðu gríðarlega eftir að Joshua Zirkzee skoraði úr síðustu vítaspyrnunni.
Leikmenn United fögnuðu gríðarlega eftir að Joshua Zirkzee skoraði úr síðustu vítaspyrnunni. Vísir/Getty

Manchester United er komið áfram í FA-bikarnum á Englandi eftir sigur á Arsenal eftir vítakeppni. Markvörðurinn Altay Bayindir var hetja United en hann varði eina spyrnu í venjulegum leiktíma sem og spyrnu Kai Havertz í vítakeppninni.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill og ljóst að bæði liðin ætluðu sér ekki að taka marga sénsa. Staðan var markalaus í hálfleik en strax í upphafi þess síðari hófst fjörið.

Bruno Fernandes kom Manchester United yfir með frábæru skoti eftir skyndisókn en aðeins tæpum tíu mínútum síðar fékk Diogo Dalot sitt annað gula spjald eftir groddaralega tæklingu. Vanhugsuð ákvörðun hjá Dalot og United orðið einum manni færri.

Diogo Dalot var rekinn af velli í síðari hálfleiknum.Vísir/Getty

Heimamenn voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn. Gabriel jafnaði metin með góðu skoti aðeins tveimur mínútum eftir rauða spjaldið og virtist sem lærisveinar Mikel Arteta ætluðu sér að hamra járnið á meðan það væri heitt.

Sjö mínútum eftir jöfnunarmarkið fékk Arsenal ódýra vítaspyrnu þegar Havertz féll í teignum. Snertingin var ekki mikil og spurningin hvort hún hefði fengið að standa hefði Bobby Madley getað nýtt sér myndbandsdómgæslu. 

Það var hasar á Emirates-leikvanginum í dag.Vísir/Getty

Það sauð uppúr á milli leikmanna liðanna eftir atvikið og þegar Martin Ödegaard fékk loksins að taka vítaspyrnuna var það Altay Bayindir sem var hetja United og varði spyrnu Norðmannsins glæsilega.

Altay Bayindir varði vítaspyrnu Martin Ödegaard á 70. mínútu.Vísir/Getty

Eftir þetta fengu Havertz og Declan Rice báðir tækifæri til að skora sigurmarkið fyrir Arsenal en fóru illa með góð færi. United hélt út og framlengja þurfti leikinn.

Þung pressa heimamanna í framlengingunni

Þar var pressa Arsenal ansi þung á köflum. Mathijs De Ligt bjargaði einu sinni á síðustu stundu þegar Rice var í góðu skotfæri og United var í hálfgerðri nauðvörn á köflum. Á fyrstu sekúndum seinni hluta framlengingar átti Joshua Zirkzee hins vegar mjög gott skot en þá var það David Raya í marki Arsenal sem gerði vel og bjargaði vel.

Declan Rice trúir varla sínum eigin augum eftir að hafa misnotað gott færi.Vísir/Getty

Þrátt fyrir þunga pressu náði Arsenal ekki að þvinga inn marki. Staðan var enn 1-1 þegar framlengingu lauk og ljóst að úrslitin myndu ráðast í vítakeppni.

Þar skoruðu Bruno Fernandes og Martin Ödegaard úr fyrstu spyrnunum og Amad Diallo skoraði síðan úr annarri spyrnu Untied. Þá var komið að Kai Havertz en Bayindir gerði sér lítið fyrir og varði skot hans alveg úti við stöng.

Altay Bayindir var hetja United í dag.Vísir/Getty

Leny Yoro, Declan Rice, Lisandro Martinez og Thomas Partey skoruðu allir úr sínum spyrnum og voru spyrnur United liðsins allar afar öruggar enda David Raya í markinu yfirleitt löngu lagður af stað í annað hornið áður en komið var að skotinu.

Það kom síðan í hlut Joshua Zirkzee að taka síðustu spyrnu United. Hann var öryggið uppmálað og tryggði United þar með sæti í 32-liða úrslitum FA-bikarsins en Arsenal er úr leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira