Enski boltinn

„Fann frá fyrstu mínútu að þetta var okkar dagur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ruben Amorim stýrði liði United til sigurs í dag.
Ruben Amorim stýrði liði United til sigurs í dag. Vísir/Getty

Ruben Amorim knattspyrnustjóri Manchester United sagði að það hefði hjálpað liðinu að skora fyrsta markið í leiknum gegn Arsenal í dag. Hann sagði liðið vera að bæta sig.

Manchester United vann góðan sigur á Arsenal í enska bikarnum í dag en framlengingu og vítaspyrnukeppni þurfti til að knýja fram úrslit í leiknum eftir að Bruno Fernandes og Gabriel höfðu skorað sitt hvort markið í venjulegum leiktíma.

Ruben Amorim knattspyrnustjóri United var vitaskuld ánægður eftir leikinn.

„Við lékum betur en í deildarleiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum betri í föstum leikatriðum, grimmari og sýndum karakter - jafnvel þó við værum bara með tíu leikmenn,“ sagði Amorim en Diogo Dalot fékk rauða spjaldið rétt áður en Arsenal jafnaði metin í síðari hálfleiknum.

„Það var erfitt fyrir okkur og Arsenal fékk einhver færi. Leikmennirnir voru orðnir mjög þreyttir.“

Hann sagðist hins vegar hafa haft góða tilfinningu fyrir leiknum.

„Ég fann frá fyrstu mínútu að þetta var okkar dagur og ég fann tenginguna við stuðningsmennina okkar.

Hann var ánægður með margt í leik síns liðs og sagði það sýna framfarir.

„Þegar við skorum fyrst þá hjálpar það okkur þegar við þjáumst. Það er styrkleiki að þjást, við gátum róað leikinn. Við erum að skilja betur hvernig við spilum, stundum spilum við ekki vel en við getum stjórnað leiknum á ákveðnum augnablikum. Það er augljóst að við erum að bæta okkur miðað við hvernig við þjáumst. Það er gott fyrir liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×