Erlent

Mál horfinna systra skekur Skot­land

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þríburarnir: Systurnar Eliza og Henrietta og bróðir þeirra Jozsef.
Þríburarnir: Systurnar Eliza og Henrietta og bróðir þeirra Jozsef.

Leit að tveimur horfnum systrum, Eliza og Henrietta Huszti, í Aberdeen í Skotlandi hefur engan árangur borið, en ekkert hefur spurst til þeirra í rúma viku.

BBC greinir frá því að mál þeirra sé ekki rannsakað sem sakamál og að engin sé grunaður í málinu.

Eliza og Henrietta eru 32 ára gamlar og upprunalega frá Ungverjalandi, en þær fluttu til Skotlands fyrir nokkrum árum. Þær eru þríburasystur, en þær eiga líka bróður sem er þriðji þríburinn.

Sky News greinir frá því að mál systranna sé í raun alveg jafn dularfullt og þegar það kom á borð lögreglu fyrir viku síðan. Síðast er vitað til ferða systranna um miðja nótt í miklum kulda þann 7. janúar, en þá sást til þeirra í myndefni úr öryggismyndavélum í miðbæ Aberdeen. Ekki er vitað hvers vegna þær voru á ferð.

Þær sáust skammt frá ánni Dee, sem á ármynni í Aberdeen, en talið er að hún hafi verið ísilögð í kuldanum. Á meðal kenninga lögreglu um hvað gerðist er að þær hafi endað í ánni. Leit hefur, líkt og áður segir, þó engan árangur borið.

Það var leigusali systranna sem gerði lögreglu fyrst viðvart um að þær væru týndar. Fram hefur komið að skömmu áður hafi þær tilkynnt honum að þær ætluðu að segja upp leigunni.

Heimildarmaður Sky, vinur systranna, hefur sagt að þær hafi ekki verið sérlega hvatvísar og ólíklegar til að taka óvæntar ákvarðanir. Þær væru duglegar konur sem skiptu sér ekki mikið að öðrum. Þá neyti þær ekki áfengis né vímuefna.

„Miðað við allt sem við höfum skoðað hingað til bendir til að þær hafi verið að lifa góðu lífi í Aberdeen - verið í vinnu, verið í sambandi við vini og fjölskyldu á fullkomnlega eðlilegan hátt,“segir Davie Howieson, hjá lögreglunni í Skotlandi, við BBC um systurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×