Körfubolti

„Þetta er það sem gerir þá öðru­vísi en önnur lið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stólarnir unnu frábæran sigur vestur í bæ í síðustu umferð.
Stólarnir unnu frábæran sigur vestur í bæ í síðustu umferð. Vísir/Anton Brink

Tindastóll vann frábæran sigur á KR í síðustu umferð Bónus deildar karla í körfubolta. Í Körfuboltakvöldi í kjölfarið var farið yfir hvað Tindastóll hefur sem önnur lið á Íslandi búa hreinlega ekki yfir.

„Það sem er kannski það fallegasta við íþróttina; menn detta í gírinn, það er stemmning, það er allt með þér,“ sagði þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson áður en Pavel Ermolinskij fékk orðið.

„Þetta er eitthvað sem leikmenn geta stundum gert, þar sem þeir detta í svona gír en að lið geti dottið í svona gír í sameiningu sem ein heild er miklu erfiðara og það geta ekki öll lið. Tindastóll hefur alltaf verið með þetta sem þeirra aðalsmerki,“ sagði Pavel og hélt áfram.

„Allt liðið dettur í trans í nokkrar mínútur þar sem það er allt ofan í, vörnin er á milljón, þetta er þeirra helsta vopn. Þetta er það sem gerir þá öðruvísi en önnur lið, það eru þessir kaflar.“

„Við höfum komið inn á þetta áður. Það sem Tindastóll sýndi á köflum gegn KR og hafa margoft í gegnum tíðina, tala nú ekki um Síkið í maí. Ekkert annað lið getur boðið upp á þetta. Þetta er ótrúlega sterkt vopn, það er svo niðurdrepandi að lenda í þessum vegg.“

„Ef ég umorða þetta, ef ég skil þetta upp þá geta þeir farið hærra upp en önnur lið á meðan í gegnum tíðina hafa önnur lið kannski verið stöðugri,“ sagði Helgi Már Magnússon að endingu en umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum ofar í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×