Tveir ungverskir viszla-hundar gengu lausir um Langholtshverfi í Reykjavík í gær. Heimilisköttur fjölskyldu í Efstasundi varð fyrir barðinu á hundunum og drepinn á stéttinni fyrir utan heimili sitt.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sömu hundar valda usla í hverfinu en síðast í júní á þessu ári voru þeir teknir af eiganda sínum, grunaðir um að hafa drepið kött í hverfinu. Annar hundanna var aftur handsamaður í gær að sögn Þorkels Heiðarssonar, deildarstjóra Dýraþjónustu Reykjavíkur.
„Sá hundur er bara í okkar vörslu núna og við erum að skoða málið áfram, hvað við gerum næst. Þessir hundar voru ekki þar sem þeir hafa verið í nokkuð langan tíma áður. Það var búið að setja ákveðin skilyrði um þetta hundahald og við erum að skoða hvernig málið situr núna miðað við þau skilyrði,“ segir Þorkell.

Eitt þeirra skilyrða var að hundarnir yrðu á sitthvoru heimilinu. Þeir séu ekki eins hættulegir þegar þeir eru í sundur.
„Þetta er svona hóphegðun þegar þeir koma saman. Þegar þeir eru í sitthvoru lagi er það í lagi en þegar þeir eru saman myndast stemning sem er alls ekki æskileg. Og það er óásættanlegt að hundar sem ganga lausir fari um með þessum hætti og ráðist á gæludýr. Það bara gengur ekki. Fyrir utan það þá valda þeir almennri ógn þannig við lítum á þetta sem almannahættu sem þarf að bregðast mjög ákveðið við,“ segir Þorkell.
Dýraþjónustunni hefur ekki borist tilkynningar um að hundarnir ráðist á fólk.
„Það breytir því ekki að svona lausaganga getur gerst. Það geta allir misst frá sér hunda en það gengur alls ekki að það gerist ítrekað. Sérstaklega þegar það gerist að það valdi ógn og skelfingu í heilum bæjarhluta, þá er það ekki ásættanlegt ástand,“ segir Þorkell.