Að minnsta kosti fimm hafa látist af völdum eitrunarinnar en talið er að einstaklingarnir hafi neytt áfengis sem meðal annars var gert úr tréspíra.
Nokkrir virðast hafa verið handteknir í tengslum við málið en starfsmenn Nana gistiheimilisins staðfestu að eigandinn og framkvæmdastjórinn væru þeirra á meðal. Tvær stúlkur frá Ástralíu sem urðu fyrir eitruninni dvöldu á gistiheimilinu.
Önnur þeirra er látin og hin þungt haldin.
Yfirvöld í Bandaríkjunum og fleiri ríkjum hafa gefið út ferðaviðvörun vegna málsins en ekki er vitað hversu umfangsmikið það er. Einn Bandaríkjamaður er meðal látnu, auk áströlsku stúlkunnar, tveggja Dana og 28 ára breskrar konu.
Afar litlar upplýsingar hafa fengist um málið og rannsókn þess og utanríkisráðuneyti Laos neitað að tjá sig. Sjúkrahúsið þar sem sjúklingar eru taldir hafa fengið meðferð vísaði á bæjaryfirvöld í Vang Vieng, sem einnig hafa neitað að tjá sig.
Guardian hefur eftir Neil Farmiloe, eiganda veitingastaðarins Kiwi Kitchen, að margir viðskiptavina hans séu uggandi vegna málsins en eins og fyrr segir er algjörlega óvíst hversu umfangsmikið það kann að vera.
Vitað er að Ástralirnir tveir höfðu verið á djamminu áður en þeir veiktust og meðal annars þegið ókeypis skot af innlendum vodka ásamt öðrum gestum Nana gistiheimilisins.