Lokadagur Norðurlandaráðsþingsins á Íslandi er runninn upp og en Bryndís Haraldsdóttir forseti Norðurlandaráðs, segir sögulega heimsókn Úkraínuforseta standa upp úr.
„Og séð hversu ofboðslega mikil samstaða er meðal þingmanna Norðurlandanna með baráttu Úkraínumanna og svo fengum við Svetlönu Tsikhanovskaya sem var líka með áhrifamikið erindi þannig að það verður að segjast að það sem stendur upp úr eftir þetta þing og gerir það sögulegt,“ segir Bryndís.

Sjá nánar: Óviss hvort eiginmaðurinn sé á lífi
Færeyingar hafa sótt það fast í marga áratugi að hljóta fulla aðild að Norðurlandaráði. Álendingar og Grænlendingar vilja það sama en það vakti athygli að enginn ráðherra Grænlands er viðstaddur þingið vegna óánægju þeirra yfir því að hafa ekki vægi til jafns við önnur ríki í Norðurlandaráði.
Í morgun samþykkti ráðið þingsályktunartillögu um breytingu á Helsingfors-sáttmálanum. Verið er að færa inn nýjar greinar eins og um öryggis- og varnarmál, loftslagsmál og fleira. En það sem meira er, Norðurlandaráðsþingið leggur til að hópur verði settur á laggirnar sem er skipaður fulltrúum ríkisstjórna landanna til að leysa úr því hvernig hægt verði að gefa Grænlandi, Færeyjum og Álandseyjum fulla aðild.
„Ég er rosalega glöð með þennan áfanga sem náðist þarna áðan því það var svo mikill samhljómur. Þetta er þó auðvitað ekki þannig að sé búið að svara öllum spurningum og einverjir kunna að velta fyrir sér stjórnarskrá og slíku en þá er það kannski okkar afstaða að segja, það er þá bara verkefni Dana, Færeyinga og Grænlendinga. Mette Frederiksen var skýr í máli sínu hér á þinginu um að þetta væri eitthvað sem þau myndu leysa. Finnar og Álendingar þurfa svo kannski aðeins að renna yfir þetta sín megin.“
Þetta sé stórt skref í rétta átt
„Það er allavega skýrt að Norðurlandaráð er að hvetja ríkisstjórnir landanna til að breyta Helsingfors-sáttamálanum og ná betur utan um þessi átta lönd sem eru og eiga að vera fullir þátttakendur í norrænu samstarfi.“