Kilja litla kom í heiminn þann 5. ágúst síðastliðinn og er fyrsta barn Sunnevu. Fyrir á Kormákur fjögur börn.
Spurð hvaðan hugmyndin að nafninu kemur segir Sunneva að það hafi komið til þeirra þegar þau voru í hestaferð yfir Kjöl síðastliðið sumar.
„Kjölur=miðja=kjölfesta. Ég var reyndar ekki á hesti en var með í ferðinni þar sem ég var komin 39 vikur á leið. Það kom okkur svo á óvart þegar við flettum Kilju nafninu upp að þetta var ekki til sem íslenskt kvenmannsnafn og þurftum því að fá leyfi hjá mannanafnanefnd,“ segir Sunneva í samtali við Vísi.
„Hún er skírð Kilja Kormákur. Við vorum skylduð til að bæta Baltasarsdóttir við af Þjóðskrá. Kormákur fékkst ekki samþykkt sem ættarnafn en það var upphaflega hugmyndin. Ættarnafnslögin eru furðuleg á Íslandi. Kormákur er vissulega karlmannsnafn en það er leyfilegt að skýra stúlkur karlmannsnafni ef það er nafn tvö eins og fjölmörg vitni eru um,“ bætir hún við.
Ákveðin fjölskylduhefð
Að sögn Baltasars hefur myndast ákveðin hefð innan fjölskyldunnar að bera nafnið Kormákur, í raun sem ættarnafn.
„Ég nota bara Baltasar Kormákur. En er auk þess skráður Baltasarsson í passanum. Tveir af sonum mínum heita Kormákur að öðru og þriðja nafni Pálmi Kormákur og Stormur Jón Kormákur, þannig að það hefur myndast ákveðin hefð,“ segir Baltasar.
Sunneva og Baltasar hafa unnið saman að stórum verkefnum og má þar nefna Netflix þáttaröðina Katla, Ófærð 3 og Snertingu. Baltasar sá um leikstjórn og Sunneva um leikmyndirnar.
Frumraun Sunnevu í búningahönnun fyrir leikhús var Njála og hlaut hún Grímuverðlaun 2015 fyrir búningana í þeirri sýningu.