Fótbolti

Kári með skoðunar­ferð fyrir Víkinga á Kýpur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kári Árnason er yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum og er á fornum slóðum.
Kári Árnason er yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum og er á fornum slóðum.

Víkingar undirbúa sig fyrir fyrsta leik liðsins í Sambandsdeild Evrópu síðar í dag. Andstæðingurinn er Omonoia í Kýpur en Kári Árnason var leikmaður liðsins á sínum tíma. Þrátt fyrir að hafa stoppað stutt við þekkir hann til á svæðinu og kynnir menn fyrir landi og þjóð í dag.

Kári lék um nokkurra mánaða skeið með Omonoia árið 2017. Hann spilaði átta leiki fyrir liðið og skoraði í þeim tvö mörk.

Hann kunni þó ekki nógu vel við sig hjá liðinu, sem hann samdi við eftir að hafa leikið með Rotherham á Englandi. Hann fékk sig lausan eftir um sex mánaða dvöl og flutti aftur til Bretlands til að leika fyrir Aberdeen í Skotlandi.

Víkingar spila við Omonoia klukkan korter í átta í kvöld að staðartíma, eða klukkan korter í fimm að íslenskum tíma. Menn þurfa að drepa tímann fram að leik og mun Kári sýna mönnum um svæðið í höfuðborginni Nicosia.

„Hann er með skoðunarferð í dag. Ég kemst reyndar ekki alveg í hann. Kári er búinn að plana eitthvað. Það fer vel um okkur, erum á topp hóteli og ekki undan neinu að kvarta,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við íþróttadeild.

Leikur Víkings og Omonia hefst klukkan 16:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×