Innlent

Brotist inn í tvær verslanir sömu nóttina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Brotist var inn í verslanir Elko í Lindum í Kópavogi og í Skeifunni.
Brotist var inn í verslanir Elko í Lindum í Kópavogi og í Skeifunni. Vísir/Egill

Brotist var inn í verslanir Elko í Lindum og Skeifunni í nótt og farsímum stolið. Unnið er að því að komast að fjölda þeirra síma sem voru teknir, og að gera þá óvirka. Framkvæmdastjórinn segir engan símaskort í uppsiglingu þrátt fyrir innbrotið.

„Það var brotist inn hjá okkur og farsímum stolið. Það er í rannsókn hjá lögreglu núna,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Elko, í samtali við fréttastofu. Hann segist fátt geta gefið upp um innbrotin, til að mynda varðandi tímasetningar, vegna rannsóknarhagsmuna hjá lögreglu.

Enginn skortur í uppsiglingu

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu og segir í frétt sinni að mögulega geti orðið skortur á ákveðnum tegundum farsíma vegna innbrotanna. Óttar segir svo ekki vera.

„Það verður ekki skortur á farsímum hjá okkur, ég get alveg fullyrt það. Við erum með góða byrgja, það er meira til í landinu af farsímum en það sem er í Lindum og Skeifunni,“ segir Óttar.

Ýmis úrræði í boði

Hann segir bæði hægt að rekja staðsetningu símtækjanna, sem og læsa þeim fjarstýrt, og gera þá þar með ónothæfa.

„Það er eitt af því sem við erum að vinna í, aðgæta hvaða magn fór út úr húsi hjá okkur og fara í þessar aðgerðir með okkar byrgjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×