Hvítabjörninn var felldur á Höfðaströnd í Jökulfjörðum á fimmtudag, um tveimur tímum eftir að kona á níræðisaldri varð hans vör fyrir utan sumarhús þar sem hún dvaldist ein. Um var að ræða unga birnu.
Erfið leitarskilyrði fyrir helgi
Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir að í kjölfar þess að dýrið var fellt hafi verið óskað eftir því við Landhelgisgæsluna að flogið yrði yfir svæðið til að kanna hvort fleiri birnir héldu þar til.
„Það var þoka í fjöllum og erfitt að leita þegar við vorum þarna í síðustu viku. Við óskuðum eftir því við gæsluna á föstudaginn að þeir kæmu við fyrsta mögulega tækifæri, þegar bjart væri í veðri og þeir ættu séns, og við myndum leita betur. Það er ekki af því að við höfum grunsemdir um að það sé dýr á ferðinni, við viljum bara leita af okkur allan grun,“ segir Helgi í samtali við Vísi.
Hann bendir á að um ungt dýr hafi verið að ræða, og því mögulegt að það hafi komið hingað með fullorðnu dýri
„En við vitum það ekkert, það veit það enginn.“
Fljótir að skanna svæðið í góðu skyggni
Þegar þetta er skrifað er þyrla gæslunnar í loftinu, en um borð eru menn úr séraðgerðasveit hennar, auk lögreglumanns frá Vestfjörðum sem er staðkunnugur.
„Þeir ætla að leita í Jökulfjörðum og á Hornströndum. Þeir verða væntanlega fljótir að þessu, enda vel tækjum búnir í þyrlunni. Það er logn, sól og gott skyggni, þannig að þetta tekur örugglega ekkert voðalega langan tíma. En þetta er samt dálítið löng strandlengja.“
Fara á vorin
Helgi segir það ekki venjuna að þetta sé gert eftir að hvítabirnir komi hingað til lands. Hins vegar sé reglulega farið í flug til að kíkja eftir bjarndýrum.
„Þetta var gert í fyrravor, ég fór meira að segja sjálfur í það með tveimur lögreglumönnum.“
Þá hafi heldur ekki verið sérstakur grunur um að bjarndýr héldi til hér á landi, en menn vildu vera vissir.
„Við höfum reynt að fara og skoða þetta fyrir sumarið, áður en það fera að koma mikið af fólki á svæðið. Bara til að sjá hvort það sé ekki óhætt þarna,“ segir Helgi. Ekki sé farið árlega, þar sem staða hafíss við landið skipti máli í þessu tilliti.
„En við höfum reynt að sinna þessu og gæslan hefur auðvitað aðstoðað okkur við það.“