Konunni var gefið að sök að taka við 86500 evrum í reiðufé, sem jafngildir um þrettán milljónum króna frá óþekktum einstaklingi í þeim tilgangi að flytja þá úr landi til Amsterdam í Hollandi. Hún geymdi fjármunina í farangri sínum, en hún var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir jól í desember 2022. Þá stefndi hún á flug til Amsterdam.
Í ákærunni segir að konunni hefði ekki getað dulist að peningurinn væri ávinningur af refsiverðum brotum.
Konan játaði brot sín, en dómnum þótti játning hennar og önnur gögn málsins sýna fram á sekt hennar.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hún hefði ekki gerst sek um refsiverða háttsemi áður. Þá hefði hún snúið við blaðinu, leitað sér meðferðar við fíknivanda og væri í endurhæfingu. Líkt og áður segir hlaut hún sex mánaða skilorðsbundinn dóm.
Henni var einnig gert að sæta upptöku á evrunum, og greiða rúmar 600 þúsund krónur í sakarkostnað.