Í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Flugþjóðin segja forstjórar íslensku flugfélaganna flugstarfsemi vera undirstöðu þess að ferðaþjónusta varð stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Icelandair er í ár með nærri fjörutíu flugvélar í alþjóðaleiðakerfinu og Play með tíu. Er nú svo komið að hægt er að fljúga frá Íslandi til yfir sjötíu borga erlendis. Frá Keflavík eru brottfarir sjaldan færri en fimmtíu á degi hverjum og brottfarir eru suma daga yfir eitthundrað.
„Við sýnum nú oft útlendingum glæru sem sýnir það að í hverri viku þá erum við með fleiri brottfarir frá Íslandi til Norður-Ameríku heldur en öll Skandinavía að öðru leyti samtals. Það er náttúrlega bara ótrúleg staða að vera í og sýnir styrkleika leiðakerfis Icelandair og styrkleika Keflavíkur sem tengimiðstöðvar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Þessi ferðaþjónusta væri auðvitað alls ekki á Íslandi svona nema af því að hér er flogið til og frá landinu í miklu meira mæli heldur en íbúafjöldi Íslands gefur nokkurt tilefni til. Það er út af þessari tengimiðstöð og auðvitað ferðagleði landsmanna og af því að Ísland er áhugaverður áfangastaður,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
„En það þarf þessi flugfélög til þess að fá þetta fólk til landsins og ef það væri ekki svo þá væri bara hagsæld á Íslandi miklu, miklu mun minni. Mér finnst fólk ekki gefa þessu alltaf nægan gaum,“ segir Einar.

Skúli Mogensen, sem byggði upp WOW AIR á mesta vaxtarskeiði ferðaþjónustunnar, tekur í sama streng.
„Ég er ekki viss um að við áttum okkur á því hvað það eru mikil forréttindi fyrir litla eyju, eða fámenna þjóð, að vera með jafn gríðarlega öflugar samgöngur og við erum með í dag. Og hvað ferðaþjónustan hefur gert mikið fyrir þjóðina og landið, - landsbyggðina,“ segir Skúli.

Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Aton vann fyrir Isavia er Keflavíkurflugvelli lýst sem stóriðju.
„Það er svo mikið hagsmunamál fyrir okkur að vera flugþjóð. Út af því að það býr til viðskiptatækifæri. Það býr til ferðaþjónustu. Og þetta hefur gefið af sér mikil lífsgæði,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton.
Hér er frétt Stöðvar 2:
Fjallað er um flugstarfsemi Íslendinga og efnahagsáhrif hennar í fjórða þætti Flugþjóðarinnar. Í fimmta þætti mánudagskvöldið 30. september fylgjum við áhöfn Air Atlanta á Boeing 747-fraktþotu í hringferð um Afríku.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvenær sem er. Hér má sjá kynningarstiklu fyrir þáttaröðina: