Íslenski boltinn

„Held að þetta verði mjög erfiður leikur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings.
Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings. Vísir/Einar

„Allir í liðinu eru mjög spenntir fyrir leiknum og vilja halda áfram góðri leiktíð,“ segir Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, um bikarúrslitaleik morgundagsins í fótbolta þar sem Víkingur mætir KA.

„Það er alltaf meiri spenna þegar maður fer í úrslit og titill er í boði. Þá er extra spenna og maður vill gera vel,“ segir Nikolaj.

Víkingur mun á morgun spila til úrslita fimmta skiptið í röð en liðið varð bikarmeistari 2019, 2021, 2022 og 2023. Mótinu 2020 var aflýst vegna COVID. En hvernig fara menn að því að gera þetta ár eftir ár?

„Við erum hungraðir í sigrurinn og að gera allt betra. Við erum með ungt lið sem hefur sannað sig vel í ár líka,“ segir Nikolaj. Hvernig halda menn í þetta hungur?

„Það er erfitt en við erum líka með þjálfara og teymi sem bakkar hann. Það þrýstir okkur í að halda áfram að gera góða hluti.“

Klippa: Hansen spenntur fyrir morgundeginum

Boðið er upp á endurtekið efni í úrslitunum í ár. Víkingur vann 3-1 sigur á KA í úrslitum í fyrra og Hansen kveðst viss um það að Norðanmenn mæti ákveðnir til leiks.

„Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur. KA hafa verið mjög góðir í undanförnum leikjum og sýna að þeir eru tilbúnir í að vinna þennan leik á morgun. Ég held þeir mæti í hefndarhug eftir tapið í fyrra,“ segir Nikolaj.

„Þeir hafa líka að Evrópusætinu að keppa á laugardaginn og hafa sýnt hvað þeir eru góðir eftir erfiða byrjun í sumar,“ bætir hann við.

En hvað þurfa Víkingar að gera til að vinna leik morgundagsins?

„Við þurfum að spila okkar leik. Við höfum vera góðir í síðustu leikjum og við þurfum að halda því áfram. Að skora mörg mörk og fá færi á okkur, og vinna leikinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×