Orkustofnun gaf Landsvikrjun virkjanaleyfi fyrir fyrir vindorkuverinu Búrfellslundi fyrir þremur vikum. Undirbúningur hafði þá staðið yfir í rúman áratug að sögn forstjóra Landsvirkjunar. Þá bregður svo við að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ætlar að kæra virkjanaleyfið til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Skemmst er að minnast þess þegar Hvammsvirkjun var komin á sama stað í ferlinu fyrir rúmu ári. Þá felldi úrskuðrarnefndin nýútgefið virkjanaleyfið úr gildi.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir málið alvarlegt að allir þurfi að bera ábyrgð á því.
„Kæruleiðirnar eru ekki hugsaðar til þess að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum. Og það er grafalvarlegt mál ef við erum í þeirri stöðu að einhver, sama hver það er, er að koma í veg fyrir eitthvað sem er löngu búið að ákveða, allir hafa komið að. Koma þar að leiðandi í veg fyrir að þjóðin raforku sem hún þarf svo sannarlega á að halda,“ segir Guðlaugur Þór.
Unnið hafi verið ötullega að því að koma raforkuframleiðslu aftur af stað eftir langt hlé.
„Það er að fara að gerast núna. Það er mjög mikil ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem ætla sér að bera ábyrgð á orkuskorti í landinu,“ segir ráðherra.

Búrfellslundur á ekki að rísa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi heldur á milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar í nágrannasveitarfélaginu Rangárþingi ytra. Þangað munu öll fasteignagjöld af vindorkuverinu renna og þar stendur hnífurinn kannski í kúnni.
Gnúpverjar segja stjórnvöld hafa lofað að jafna tekjur sveitarfélaga af mannvirkjum virkjana. Þar til ný lög hafi verið samþykkt þar að lútandi, væri ekki hægt að halda áfram með Búrfellslund.
Það er einn þingvetur eftir af kjörtímabilinu. Heldur þú að þetta umrædda þingmál rati inn í þingið á haustmánuðum?
„Það er á þingmálaskrá og það fer inn í þingið. Það hefur alltaf legið fyrir og allir vita það,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.