Skoðun

Í sam­bandi við Suður­nesin

Steinunn Þorsteinsdóttir skrifar

Framkvæmdir eru hafnar á ný við Suðurnesjalínu 2, framkvæmdir sem munu skila íbúum á svæðinu meira orkuöryggi, betri lífsgæðum og um leið færa okkur skrefi nær orkuskiptunum, en Suðurnesjalína 2 er hluti af nýrri kynslóð byggðalínu sem gegnir þar lykilhlutverki.

Þetta eru tímamót í orkusögunni og við hlökkum til að skrifa þennan kafla sem hefur átt sér langa forsögu, sögu sem nær aftur til ársins 2005. Eins og í góðum sögum hefur gengið á ýmsu en við skulum fara örstutt aftur í tímann þegar Suðurnesjalína var hluti af verkefni sem hét Suðvesturlínur og var verkefni í flutningskerfinu sem náði frá Hellisheiði að Geithálsi, í Hafnarfjörð og út á Reykjanes. Undirbúningur tók tíma og í september 2009 féllst Skipulagsstofnun á mat okkar hjá Landsneti á umhverfisáhrifum með skilyrðum. Verkefnið Suðvesturlínur varð ekki að veruleika og á fyrri hluta árs 2011 hófst undirbúningur á Suðurnesjalínu 2, en brýn nauðsyn var að ráðast í þá framkvæmd til að bæta afhendingaröryggi á Suðurnesjum og auka flutningsgetu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Næstu ár var línan í umræðunni á sama tíma og bara ein lína flutti rafmagn til og frá svæðinu með óásættanlegu afhendingaröryggi og með Reykjanesið undir í jarðskjálftum og eldgosum.

Framkvæmdaleyfi komu og fóru, mikil umræða var um línuleiðina, jarðstrengi og loftlínur, landeigendur á hluta línuleiðarinnar voru ósáttir, ákvörðun var tekin um eignarnám og um tíma var línan fyrir dómstólum þar sem eignarnámið var á endanum fellt úr gildi og okkur gert að skoða betur möguleika á að leggja jarðstreng á hluta línuleiðarinnar.

Í kjölfar dóma Hæstaréttar fór fram umfangsmikið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og fleiri kostir metnir. Var þá lagður fram valkostur sem Skipulagsstofnun samþykkti í apríl 2022 og sveitarfélögin á línuleiðinni gáfu framkvæmdaleyfi fyrir og er línan á aðalskipulagi allra sveitarfélaganna og á svæðisskipulagi.

Nú hefur verið samið við um 96% af landeigendum en ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála hefur heimilað eignarnám á þeim jörðum þar sem ekki hafa náðst samningar við alla landeigendur.

Þetta er auðvitað örsaga sem hér er sögð og stiklað á stóru en í dag horfum við til framtíðar sem er ljós. Við erum nú þegar byrjuð á slóðagerð og í kjölfarið verður borað fyrir stagfestum og undirstöður settar niður. Öllum helstu innkaupum og útboðum er lokið og möstur, leiðarar og annað efni komið í framleiðslu. Stefnt er að því að línan verði tekin í rekstur haustið 2025.

Okkur hjá Landsneti langar til að þakka öllum sem hafa komið að línunni undanfarin ár, sveitarstjórnarfólki sem við höfum átt í samskiptum við, stjórnvöldum, landeigendum, hagsmunaaðilum og verkefnaráði, fyrir samtalið sem skiptir okkur miklu máli. Samtal sem mun halda áfram á meðan á framkvæmd stendur og við stingum Suðurnesjalínu 2 í samband.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsnets.




Skoðun

Sjá meira


×