Skoðun

Baldur í stóru og smáu

Kristín Kristinsdóttir skrifar

Baldur Þórhallsson er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann er vinsæll og virtur kennari en þegar hann er ekki við kennslu ferðast hann um allan heim og fjallar um sérfræðisvið sitt og sérstakt áhugamál; stöðu smáríkja. Hvernig smáríki heimsins geta látið til sín taka í heimi þar sem stærstu ríkin hafa sögulega ráðið mestu.

Baldur fæddist auðvitað ekki sem prófessor við háskólann eða sérfræðingur í stöðu smáríkja í stórum heimi. Hann er sveitastrákur af Suðurlandinu, strákur sem ólst upp á sauðfjárbúi og rak bú afa síns um tíma, þá kornungur. Hann var sæll og glaður í sveitinni, en hann vildi samt kynnast öðrum og stærri heimi. Sú staðreynd finnst mér lýsandi fyrir allan hans feril. „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig,“ eins og ritað er.

Mér finnst fallegt að heyra Baldur tala af hlýju um uppvöxt sinn í sveitinni og mér finnst traustvekjandi að sjá hvaða lærdóm hann hefur dregið af þeim uppvexti. Hann lærði fyrirhyggju sem hefur nýst honum alla tíð síðan. Strákurinn sem rak bú afa síns á unglingsárum veit að nauðsynlegt er að hugsa fram í tímann og fyrirhyggjan er líka eitt af grunnviðfangsefnum rannsóknarseturs smáríkja sem hann stofnaði. Við þurfum að sýna fyrirhyggju varðandi fæðuöryggi og orkuöryggi, við þurfum að gæta að birgðastöðu í landinu, við þurfum að tryggja örugg fjarskipti við önnur lönd og svo mætti lengi telja.

Við Íslendingar tökum gjarnan þann pól í hæðina að yppa öxlum og segja að allt reddist. Sjálfsagt hverfur sá hugsunarháttur seint og ástæðulaust að fárast yfir honum. En sannir leiðtogar geta ekki leyft sér að hugsa á þann veg. Þeir sýna fyrirhyggju.

Ástæður þess að ég kýs Baldur Þórhallsson í forsetakosningunum 1. júní eru ótal margar. Þær eru stórar og smáar. Baldur hugar sjálfur að stóru jafnt sem smáu og þess vegna veit ég að hann mun valda embættinu með miklum sóma.

Höfundur er kennari og stolt stuðningskona Baldurs Þórhallssonar.




Skoðun

Sjá meira


×