Hann var fyrsti lifandi maðurinn til að fá nýru með þessum hætti. Áður höfðu tveir heiladauðir menn fengið nýru úr svínum en báðir létust innan nokkurra mánaða.
AP fréttaveitan hefur eftir yfirlýsingu frá forsvarsmönnum sjúkrahússins þar sem aðgerðin var framkvæmd að ekkert bendi til þess að Slayman hafi dáið vegna aðgerðarinnar.
Slayman fékk fyrst grædd í sig nýru árið 2018 en þurfti að byrja á himnuskiljun aftur í fyrra þegar nýju nýrun fóru að bregðast honum. Þá lögðu læknar hans til að hann prófaði að láta græða í sig svínsnýru.
Fjölskylda Slaymans hefur sent út yfirlýsingu þar sem læknum hans er þakkað fyrir að hafa gefið honum sjö vikur í faðmi fjölskyldunnar. Fjölskyldumeðlimir hans segja að hann hafi ákveðið að undirgangast aðgerðina að hluta til að gefa öðrum sjúklingum séns á að fá ný nýru í framtíðinni.
Rúmlega hundrað þúsund manns eru á biðlista eftir nýjum líffærum í Bandaríkjunum og eru flestir þeirra að bíða eftir nýjum nýrum. Þúsundir deyja á ári hverju áður en þau fá ný líffæri.
Reynt hefur verið að græða líffæri úr dýrum í fólk en þeim er iðulega hafnað mjög fljótt af líkömum þeirra sem þau eru grædd í. Á undanförnum árum hafa tilraunir verið gerðar með líffæri erfðabreyttra svína sem eiga að gera líffærin líkari þeim sem finnast í mönnum og þannig draga úr líkunum á því að þeim sé hafnað.
Í upphafi árs 2022 var hjarta úr svíni grætt í mann í fyrsta sinn. Hann lést þó síðar það ár en ekki sökum þess að líkami hans hafnaði hjartanu.