Þrátt fyrir að vera ekki gróf var viðureign ÍA og FH mjög spjaldarík. Þar fengu tveir leikmenn – Ísak Óli Ólafsson, FH, og Oliver Stefánsson, ÍA, tvö gul spjöld og þar með rautt. Þeir verða því báðir í leikbanni í 5. umferð Bestu deildar karla. Þar mætir FH nýliðum Vestra meðan ÍA fer í Garðabæinn og mætir Stjörnuna.
Þetta kom fram á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ. Þar kom einnig fram að fjórir leikmenn verða í banni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins og að FH hafi fengið tvær mismunandi sektir vegna fjölda refsistiga í tveimur leikjum.
Alls fékk FH 16 þúsund króna sekt fyrir leik sinn gegn Val þar sem liðið fékk 10 refsistig (sex gul og eitt rautt spjald).
Þá fékk FH 12 þúsund króna sekt fyrir leikinn gegn ÍA þar sem liðið fékk 9 refsistig (sjö gul spjöld og þar af leiðandi eitt rautt því Ísak Óli fékk tvö gul). ÍA fékk sömu sekt fyrir sama fjölda refsistiga fyrir að fá átta gul spjöld, og þar með eitt rautt þar sem Oliver fékk tvö gul.