Vonast er til þess að sendingin verði tilbúin þegar Biden skrifar undir frumvarp um hernaðaraðstoð en það gæti gerst seinni partinn á morgun.
Bretar ætla sér einnig að senda stóra hergagnasendingu til Úkraínu.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti á laugardaginn frumvarp um 61 milljarða dala hernaðaraðstoð til Úkraínu og mun frumvarpið að öllum líkindum fara fyrir fulltrúadeildina á morgun, þriðjudag. Joe Biden, forseti, hefur sagt að hann muni skrifa undir frumvarpið eins fljótt og hann geti.
Starfsmenn Varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafa unnið að því að undirbúa fyrstu hergagnasendinguna til Úkraínu en hún er sögð í stærra lagi.
Samkvæmt heimildum Politico eiga Bradley-bryndrekar að vera í pakkanum, auk brynvarinna bíla sem kallast Humvees og gamalla M113 bryndreka, sem notaðir eru til að flytja menn á vígvellinum. Þá verða skotfæri af ýmsu tagi í pakkanum, sem Úkraínumenn hefur vantað lengi en Bandaríkjamenn hafa litla sem enga hernaðaraðstoð sent til Úkraínu í nokkra mánuði og ríkjum Evrópu hefur gengið erfiðlega að fylla upp í skarðið.
Skorturinn hefur komið niður á vörnum Úkraínumanna gegn Rússum.
Sjá einnig: Sirskí segir stöðuna hafa versnað töluvert
Biden ræddi við Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í dag en eftir símtalið sagði úkraínski forsetinn frá því að Bandaríkjamenn ætluðu að senda Úkraínumönnum svokallaðar ATACMS-eldflaugar.
Maximum damage must be inflicted on everything that Russia relies on for terror and timely military logistics.
— Volodymyr Zelenskyy / (@ZelenskyyUa) April 22, 2024
I am grateful to everyone around the world who is willing to help us with this, and we are working with our American partners to expand our capabilities.
Four key pic.twitter.com/WvuOzBdDSS
ATACMS stendur fyrir Army Tactical Missile System, en þar er um að ræða eldflaugar sem eiga að drífa allt að þrjú hundruð kílómetra. Hægt er að skjóta þeim með HIMARS-eldflaugakerfum, sem Úkraínumenn hafa fengið frá Bandaríkjamönnum og Bretum.
Úkraínumenn hafa áður fengið sendingar af ATACMS frá Bandaríkjunum og eru sagðir hafa notað þær með góðum árangri gegn birgðastöðvum, stjórnstöðvum og flugvöllum sem Rússar nota.
Sjá einnig: Sagðar meðal verstu árása sem Rússar hafa orðið fyrir
Ekki liggur fyrir hve margar eldflaugar til stendur að senda til Úkraínu að þessu sinni en fregnir hafa áður borist af því að Bandaríkjamenn eigi tiltölulega fáar ATACMS. Þær eru framleiddar af Lockheed Martin sem getur einungis framleitt um fimm hundruð á ári.
Úkraínumenn hafa einnig beðið Þjóðverja um svokallaðar Taurus-eldflaugar, sem eru ekki ósvipaðar Taurus, fyrir utan það að skjóta þarf þeim með flugvélum. Ráðamenn í Þýskalandi hafa þó ekki viljað verða við því hingað til.
Bretar senda einnig hergögn
Úkraínumenn hafa einnig fengið svokallaðar Storm Shadow/SCALP-stýriflaugar frá Frökkum og Bretum. Þær geta borið um 450 kílóa sprengihleðslu eru sagðar drífa rúma 250 kílómetra.
Yfirvöld í Bretlandi eru einnig sögð vinna að stórum hergagnapakka til Úkraínu. Hann ku innihalda hundruð eldflauga til árása og flugskeyta fyrir loftvarnarkerfi, auk Storm Shadow stýriflauga. Blaðamaður Bloomberg segir pakkann þann stærsta sem Bretar hafa hingað til sent til Úkraínu.
NEW: The UK will send more Storm Shadow long-range missiles to Ukraine as part of its single biggest military aid package to the country since Russia s invasion
— Alex Wickham (@alexwickham) April 22, 2024
Britain is also sending more than 1,600 strike and air defense missiles
£500m of new spending