Bókin hefur ekki titil en verður gefin út af útgáfufélaginu Open Field, sem er í eigu Maríu Shriver. Hún kemur út á næsta ári.
Heming Willis sagði í samtali við Sunday Paper, fréttabréf Shriver, að hún hefði ekki getað gengið að upplýsingum né stuðningi eftir að Bruce var greindur með framheilabilun.
„Ég tel það vera mög mikilvægt hvernig læknir greinir sjúklingi og aðstandanda frá. Það er bráðnauðsynlegt að hafa upplýsingar og bjargráð á reiðum höndum. Ég veit, útfrá minni reynslu og annarra umönnunaraðila sem ég hef rætt við, að sögur okkar eru því miður sambærilegar. Við yfirgáfum þessa skrifstofu með litlar sem engar upplýsingar eða stuðning og með greiningu sem ég gat varla borið fram,“ sagði hún.
Fjölskylda Bruce greindi frá því árið 2022 að leikaraferli hans væri lokið, sökum málstols (e. aphasia). Ári seinna bárust svo þær fregnir að leikarinn hefði verið greindur með framheilabilun. Á þeim tímapunkti stigu margir samstarfsmenn hans fram og sögðust hafa haft áhyggjur af leikaranum í mörg ár.
Heming Willis sagði frá því í fyrra að hún væri nú aðal umönnunaraðili eiginmannsins en það væri ekki ljóst hvort hann hefði fullan skilning á greiningunni sem hann hefði fengið.
Í viðtalinu við Sunday Paper sagðist hún þó hafa meiri von nú en þegar Bruce var fyrst greindur.
„Ég hef aukinn skilning á sjúkdómnum og hef myndað tengsl við ótrúlegt stuðningsnet. Ég finn til vonar í því að hafa fundið nýjan tilgang, tilgang sem ég leitaði ekki að, en að geta notað sviðsljósið til að hjálpa og valdefla aðra.“
Sagði hún ástvini einstaklinga með heilabilun þurfa að fá að vita að þeir séu ekki einir. Þá sagðist hún sjá fyrir sér að bókin sem hún væri að skrifa yrði afhent aðstandendum allra sem greindust með sjúkdóminn.