Íslenski boltinn

Víkingur vann 7-0 sigur á KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði þrennu í leiknum í gær.
Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði þrennu í leiknum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Kvennalið Víkings hélt sigurgöngu sinni áfram í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu með sjö marka stórsigri á KR í gær.

Víkingur, sem verður nýliði í Bestu deild kvenna í sumar, hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í mótinu með markatölunni 25-1.

Liðið varð bikarmeistari í fyrra, fyrst liða úr B-deild, og fær nú tækifæri til að spila við bestu lið landsins. Það er ljóst að liðið mætir á miklu skriði inn í undirbúningstímabilið ef marka má úrslit fyrstu leikja liðsins á nýju ári.

Víkingur vann 7-0 sigur á KR í Egilshöllinni í gær. Selma Dögg Björgvinsdóttir skoraði þrennu í leiknum, Hafdís Bára Höskuldsdóttir skoraði tvíveigis og þær Birta Birgisdóttir og Nadía Atladóttir skoruðu sitt hvort markið.

Víkingskonur komust í 3-0 eftir aðeins átta mínútna leik og voru komnar í 4-0 eftir átján mínútur.

Víkingskonur höfðu áður unnið 8-1 sigur á ÍR og 10-0 sigur á Fjölni.

Víkingsliðið á nú þrjá markahæstu leikmenn Reykjavíkurmótsins. Hafdís Bára Höskuldsdóttir hefur skorað sjö mörk og þær Bergdís Sveinsdóttir og Selma Dögg Björgvinsdóttir eru báðar með fjögur mörk.

Hafdís Bára hefur skorað tvö mörk eða fleiri í öllum þremur leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×