Skoðun

Gegn þjóðarmorði?

Guðjón Idir skrifar

Það er ómögulegt að skilja að ekki sé búið að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Að ekki sé búið að nýta alþjóðavettvang til að tjá með skýrum hætti að þessi þjóð standi gegn þjóðarmorði Ísraela í Palestínu og gegn sálarlausri grimmd zíonistanna sem stjórna Ísrael og er heimsbyggðinni augljós. Að standa hjá er að styðja þjóðarmorð. Þessi illvirki marka djúp spor í sögu heimsins, sér í lagi því allir sjá og heyra sem vilja; myndir og myndbönd af myrtum börnum, blóðþyrst ummæli háttsettra zíonista, sprengda spítala, rústirnar.

Undirlægjuháttur gagnvart vesturveldunum sýnir fullkomið mannleysi íslenskra stjórnmála- og embættismanna, án nokkurs sóma, alveg úr sambandi við heilbrigða samvisku. Eins og kom svo skýrt fram þegar Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslu Sameinuðuþjóðanna um vopnahlé.

Um árið buðu nokkrir herrar upp á notkun flugvallarins hér þegar Bandaríkin ákváðu að rústa Afganistan og í framhaldinu voru sendir íslenskir ,,friðargæsluliðar” til Afganistan. Þegar Bandaríkin ákvaðu að rústa Írak ákvað ríkisstjórnin hér að Ísland skyldi formlega styðja þau illvirki.

Í meintu lýðræðisríki þegar svona gríðarlega stórar ákvarðanir eru teknar verður að ráðgast við þjóðina beint til að fá skýrt umboð.

Að sama skapi þarf að fá fram vilja þjóðarinnar til að ákvarða hvort á því sé stætt að eiga í stjórnmálasambandi við ríki sem stendur fyrir þjóðarmorði. Og hvort og hvernig alþjóðavettvangur, eins og vettvangur Sameinuðuþjóðanna, skuli nýttur til að tjá afstöðu þjóðarinnar.

Það má telja fram fjölmargt sem virðist ólýðræðislegt þegar kemur að rekstri ríkisins og þeim ákvörðunum sem um okkur og okkar samfélag eru teknar. En það að nokkrir aðilar tali fyrir hönd allrar þjóðarinnar til að styðja fjöldamorð á saklausum borgurum annarra landa eða þá fordæma ekki þjóðarmorð, eins og á sér nú stað, á ekkert skylt við merkingarbært lýðræði.

Það sér það hver manneskja sem lítur ekki undan að þessi illvirki eru óverjanleg. Í þessu sem öðru veltir maður fyrir sér hversu djúp gjáin sé á milli vilja almennings og meintra lýðræðislegra ákvarðana.




Skoðun

Sjá meira


×