„Tæknideildin hefur bara verið á vettvangi í dag að rannsaka hann með tilliti til eldsupptaka. Að öðru leyti hefur engin frekari rannsókn farið fram í dag,“ segir Eiríkur Valberg, lögreglufullltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild.
Greint var frá því í gær að íbúi í húsinu, sem vaknaði við reykskynjara, hafi séð eld í þurrkara í eldhúsi hússins. Eiríkur segir þetta eitt af því sem tæknideild sé að skoða.
Sex bjuggu á efri hæð hússins við Stangarhyl þar sem eldurinn kom upp og varð altjón á hæðinni. Eigandi hússins útvegaði íbúum gistingu í nótt. Húsið er ekki samþykkt íbúðarhúsnæði. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, ítrekaði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær ábyrgð leiguasala.
„Það sem er náttúrulega lykilatriði er að eigandi húsnæðis verður bara að vita að það er ábyrgðarhlutverk að leigja,“ sagði Jón Viðar.