Það vakti eðlilega athygli þegar jafn góð skytta og Heinonen er byrjar á bekknum. Þegar Dalmay var spurður út ástæðuna að leik loknum sagði hann:
„Það eru alltaf einhverjir meistarar í öllum hlaðvörpum og sjónvarpsþáttum að tala um að fá við fáum ekki neitt af bekknum. Þannig að ég ákvað bara að segja „Fokkið þið ykkur, ég ætla að vera með 30 stiga mann á bekknum.“ Þá getur enginn mætt í körfuboltakvöld og sagt að við fáum ekki neitt af bekknum.“
Teitur Örlygsson, sérfræðingur þáttarins, sagði að hann hefði heyrt að nærri allt væri ofan í hjá Heinonen á æfingum í Ólafssal. „Þarna sjáum við svona skotsýningu,“ bætti hann við á meðan myndefni úr sigri Hauka á Hamri rúllaði í síðasta þætti Körfuboltakvölds.
„Frábært að eiga svona mann. Við vissum þetta og Maté vissi þetta manna best sjálfur. Hann er búinn að vera tala um það vantaði meira flæði í leikinn til að opna meira pláss fyrir þessa frábæru skyttu sem hann er með. Þarna bara gerðist það, var allt annar bragur á Haukunum. Æðislega fallegur körfubolti sem þeir voru að spila og gaman að horfa á þetta,“ bætti Teitur við.
„Þetta er finnsk uppskrift. Finnarnir eru rosalega góðir í að búa til svona leikmenn. Hlaupandi af screen-um. Eru í hornunum, ekki mikið að skapa sjálfir á dribblinu, eru góðir „3 and D“ leikmenn,“ sagði hinn sérfræðingur þáttarins að þessu sinni, Ómar Örn Sævarsson.
„Fyrst Maté var að tala um þetta, að byrja með sinn mann á bekknum. Þeir skíttapa bekkjarbaráttunni. Þeir skora 38 stig af bekknum en Hamar er með 55 stig. Þetta er ekki nægilega gott. Settu báða Finnana á bekkinn,“ sagði Ómar Örn að endingu og glotti við tönn.
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.