Greta, nefnd á vegum Evrópuráðsins sendir stjórnvöldum tóninn í þriðju úttekt sinni um stöðu mansalsmála hér á landi sem birtist í morgun.
Nefndin hefur áhyggjur af takmörkuðum árangri stjórnvalda í baráttunni gegn vinnumansali og brýnir þau til dáða. Fram kemur að hér skorti enn formlegar verklagsreglur í málaflokknum. Þá er bent á vankanta í baráttu gegn mansali barna. Í skýrslunni kemur fram að þó lögreglan hafi rannsakað 71 mál síðustu ár hafi aðeins verið ákært í einu og sakborningur verið sýknaður.
Þá kemur fram að Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis hafi fengið 25 tilkynningar um mansal á tveimur árum. Tilfellin séu þó mun fleiri.
Jenný Kristín Valberg teymisstjóri hjá Bjarkarhlíð Bjarkarhlíð segir að heimilið hafi fengið enn fleiri tilkynningar um mögulegt mansal á þessu ári eða 35 talsins .
„Þetta er mjög umfangsmikið. Ég tel að við séum aðeins að sjá toppinn á ísjakanum. Þetta eru aðallega karlmenn sem lenda í þessu núna og þá vinnumansali. Við sem samfélag þurfum að vera meira vakandi því það getur verið hagnýting í gangi víða,“ segir hún.
Jenný segir að það þurfi að þjálfa fleiri í að finna þolendur mansals og samstilla störf í málaflokknum.
„Eins og staða er núna er enginn einn einstaklingur sem er í að vinna að mansalsmálum. Ég held að það sé mjög brýnt að það sé gerð áætlun um samhæfingu um hvernig á að taka þessum málum. Þá þarf hún að vera kynnt fyrir öllum aðilum sem koma að þolendum mansals,“ segir Jenný.
Er í bígerð hjá ráðherra
Dómsmálaráðherra sagðist í hádegisfréttum Bylgjunnar ætla að hrinda af stað nýrri aðgerðaráætlun í málaflokknum. Þá þyrftu fleiri ráðuneyti að vinna saman að því að sporna gegn vandanum.