Innlent

Einn fluttur á sjúkra­hús eftir al­var­legt slys

Árni Sæberg skrifar
Hægra megin má sjá gaffallyftarann og hitt ökutækið.
Hægra megin má sjá gaffallyftarann og hitt ökutækið. VÍSIR/Viktor

Aðgerðum er lokið á Lækjargötu í Reykjavík, þar sem alvarlegt umferðarslys varð um klukkan 13:25 í dag. Einn hefur verið fluttur á sjúkrahús.

Þetta staðfestir Guðjón Ingvarsson, vaktstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann segir ekki vitað að svo stöddu hversu alvarlega sá sem var fluttur er.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins rákust þar tvö ökutæki saman. Einungis ökumenn voru í ökutækjunum tveimur. Að sögn sjónarvotta var annað ökutækið gaffallyftari.

Slysið varð á mótum Lækjargötu og Vonarstræti, lögregla girti af svæði í kringum slysstað og lokaði götum en lokunum hefur nú verið aflétt.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem send var á fjölmiðla skömmu fyrir klukkan 14, segir að um alvarlegt slys hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×