„Hvalveiðarnar eru atvinnurekstur sem hefur átt undir högg að sækja hjá ákveðnum stofnunum hér á landi undanfarin ár. Ef fyrirtækjum er haldið frá rekstri eins og gerst hefur í okkar tilfelli, þá er erfitt að gera það ár upp með hagnaði,“ segir Kristján í samtali við Morgunblaðið en í skýrslunni kemur meðal annars fram að ávinningur af veiðunum sé takmarkaður, bæði fyrir þjóðarbúið og fyrir Hval.
Um 120 manns hafa atvinnu af hvalveiðunum hluta úr ári og í skýrslunni segir að þrátt fyrir takmörkuð áhrif á efnahag landsins sé um að ræða töluverðar tekjur fyrir viðkomandi einstaklinga, sem séu með 1,7 til 2 milljónir á mánuði í laun á meðan veiðunum stendur.
„Þetta er algerlega í anda þess sem verkalýðsfélagið hefur verið að benda á; þau gríðarlegu efnahagslegu áhrif sem hvalveiðibannið hefur á mína félagsmenn. Það er skylda stéttarfélaganna að verja atvinnuöryggi sinna félagsmanna, að ekki sé talað um tekjumöguleika sem eru af þeirri stærðargráðu sem raun ber vitni þegar vertíðin stendur yfir,“ hefur Morgunblaðið eftir Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, um niðurstöður skýrslunnar.
„Ég ætla bara að vona að Svandís matvælaráðherra sjái að sér og heimili veiðarnar hinn 1. september til að lágmarka þann skaða sem hún hefur þegar valdið mínum félagsmönnum.”