Á þessum síðasta bíódegi kvikmyndahússins verða fjórar myndir til sýningar í bíóinu.
Nýjasta Pixar-myndin Elemental verður sýnd klukkan sex í kvöld með íslensku tali. Þá verður Asteroid City, nýjasta mynd Wes Anderson, sýnd tvisvar, klukkan 18:10 og 20:20. Ofurhetjumyndin The Flash verður sýnd klukkan hálf níu og síðasta myndin sem verður sýnd er ofurhetju-teiknimyndin Spider-Man: Across The Spider-Verse.
Það er því úr ýmsu að taka fyrir þá sem vilja fara einu sinni enn í Háskólabíó áður en það lokar.

Tap á rekstrinum í langan tíma
Fyrr í mánuðinum var greint frá því að Sena, sem hefur séð um bíórekstur í Háskólabíói frá 2007, hefði ákveðið ákveðið að segja upp leigusamningi sínum um rekstur kvikmyndahússins frá og með næstu mánaðamótum.
Að sögn Konstantíns Mikaels Mikaelssonar, framkvæmdastjóra Smárabíós, er ástæðan fyrir lokuninni lítil aðsókn og aðstaða sem mæti ekki kröfum viðskiptavina. Tap hefði verið á rekstri Háskólabíós frá því fyrir heimsfaraldur.
Rekstur Smárabíós hafi hins vegar náð að rétta úr kútnum, og vel það, og því hafi verið ákveðið að Sena myndi einbeita sér að rekstri þess.