Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, staðfestir í samtali við Vísi að lögreglan hafi málið til rannsóknar. Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða bóndabæ í Arnarfirði þar sem eigandi hefur verið tilkynntur til Matvælastofnunar vegna aðbúnaðar hrossa á bænum.
Eigandinn hafði áður kallað til lögreglu í fyrrinótt þar sem tveir mættu með hestakerru og reyndu að fjarlæga hrossið. Lögreglan skarst hins vegar í leikinn og var hrossinu skilað aftur til eiganda í það skiptið.
Hlynur segir málið til rannsóknar og að hann muni ekki tjá sig frekar að svo stöddu. Vísir náði ekki í eiganda hrossanna á bóndabænum í Arnarfirði vegna málsins.
Áður hafði eigandinn sagt í samtali við fréttastofu að hestarnir væru við hestaheilsu, utan eins þeirra sem sé með hófsperru. Hann hafi þrátt fyrir hana ekki kveinkað sér og Matvælastofnun hefði beint því til hans að aflífa hestinn, sem hann hugðist gera um helgina.
Dýravelferðarsinninn Steinunn Árnadóttir vakti athygli á aðbúnaði hestanna sem hún sagði slæman. Hún var ekki sátt við viðbrögð Matvælastofnunar og lýsti þeim viðbrögðum í samtali við Vísi í fyrradag.
„Ég er eiginlega bara orðlaus ef þau ætla að gera þetta svona. Að þessi eini hestur ætti að vera aflífaður og að annars sé allt í góðu lagi. Þá er nú, eins og mig hefur nú lengi grunað, eitthvað mikið að vinnuaðferðum Matvælastofnunar.“