Þetta staðfestir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða bóndabæ í Arnarfirði þar sem eigandi hefur verið tilkynntur til Matvælastofnunar vegna aðbúnaðar hrossa á bænum.
Að sögn Hlyns mætti viðkomandi með hestakerru og hafði fjarlægt eitt hrossanna. Hann var ekki kominn langt þegar lögreglan mætti á svæðið og hafði afskipti af honum. Var hrossinu skilað aftur til eiganda.
Eigandi hrossins vildi ekki tjá sig um málið við Vísi. Í gær sagði hann í samtali við fréttastofu að Matvælastofnun hefði haft samband við sig vegna hrossanna.
Hann segir hestana við heilsu fyrir utan einn þeirra sem sé með hófsperru, sem hafi þrátt fyrir hana ekki kveinkað sér. Stofnunin hafi beint því til hans að aflífa hestinn sem hann hyggst gera um helgina.