Í kvöldfréttum okkar í gær steig móðir í Laugarnesskóla fram og opnaði sig um erfið veikindi dóttur sinnar sem rakin eru til myglu í skólanum. Heilsan skánaði þó mikið þegar árgangi stúlkunnar var komið fyrir í skrifstofurými KSÍ vegna plássleysis. Kennarar segjast þreyttir á hægagangi og vilja alvöru úrbætur en ekki „plástra“.
Síðasta haust varpaði skýrsla Eflu ljósi á ýmis raka- og myglutengd vandamál í skólanum en úrbætur ganga hægt. Á dögunum sendi starfsfólk skólans borgarstjóra opið bréf um málið, í hópi þeirra er Rúna Björg Garðarsdóttir.
„Við efumst ekkert um vilja borgarinnar til þess að ráðast í þessar framkvæmdir sem þarf að ráðast í en nú er bara mál að linni. Nú þurfa hlutirnir að fara að gerast hraðar en þeir gerast nú. Það eru ýmis áform uppi og búið að taka ákvörðun um að það eigi að laga þetta en nú þolir málið bara ekki meiri bið.“
Síðustu ár hafi kennarar hrökklast úr starfi vegna veikinda sem rakin eru til myglu.

„Við teljum alveg einhverja sjö sem hafa hætt störfum við skólann út af einhverjum heilsufarsvandamálum. finna fyrir einhverjum einkennum og sú saga nær í rauninni langt aftur úr, lengra en þegar fólk almennt var farið að tala um og tengja þetta vandamál við myglu.“
Rúna segir skólafólk þreytt á afsökunum frá yfirvöldum.
„Þeir bíða í kreppu, þeir bíða í heimsfaraldri og í góðæri þá virðast skólarnir líka bíða. það er svona okkar upplifun.“
Borgastjóri hafði ekki tök á viðtali vegna funda en í orðsendingu vísar hann til þess að hluti skólans sé friðaður og að mikilvægt sé að vanda til verka. Allar áætlanir séu unnar í samstarfi við skólastjórnendur.