Guðmundur missti báða handleggina í vinnuslysi árið 1998 en í janúar árið 2021 varð hann fyrsti maðurinn til að gangast undir ágræðslu á báðum handleggjum fyrir ofan axlir. Hefur hann reglulega birt uppfærslur á lífi sínu með nýju hendurnar á samfélagsmiðlum.
Breska götublaðið Mirror birti á þriðjudag umfjöllun um nýjasta afrek Guðmundar. Hann er byrjaður að hjóla á ný. Í samtali við Mirror segist hann hafa reglulega hjólað í vinnuna fyrir slysið.
„Ég var með stól fyrir litlu stelpuna mína og fannst virkilega gaman að nota hjólið. Ég hef stefnt á að hjóla í langan tíma, jafnvel á meðan ég var að bíða eftir höndunum. En mér datt aldrei í hug hvernig ég færi að því,“ segir Guðmundur Felix.
Á sex mánaða fresti gerir hann lista ásamt iðjuþjálfa sínum yfir fimm mikilvæga hluti sem hann vill ná að gera það tímabil. Fyrst um sinn voru það hlutir eins og að mata sig sjálfur en fyrir ári síðan setti hann hjólreiðarnar á listann.
Hann pantaði sér hjól frá Hominid X sem er með fótabremsur. Hjólið fékk hann afhent nú í apríl og gat hann því hjólað í fyrsta sinn í 25 ár.

„Ég var smá óöruggur fyrst um sinn því ég vissi að ég þurfti hjól þar sem ég hallaði mér ekki fram. Ég var alveg tilbúinn í að þetta myndi ekki ganga vel. Ég hélt ég myndi detta en það hefur enn ekki gerst,“ segir Guðmundur Felix.
Hann segist ekki vera alveg tilbúinn í að hjóla í almenningi en hann telur að sumarið verði nýtt í að prófa það. Hann vill geta hjólað í og úr læknatímum sem hann fer í í Frakklandi.