Fyrir helgi var greint frá því að alls hefðu þrjátíu manns sagt sig úr flokknum eftir að frumvarpið var samþykkt. Á meðal þeirra sem sögðu sig úr flokknum voru til dæmis Bjartur Steingrímsson, sem var lengi virkur í ungliðastarfi flokksins og hefur verið á lista flokksins í Mosfellsbæ, en hann er sonur Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi formanns flokksins, og eiginmaður Unu Hildardóttur, varaþingmanns VG.
Þá sögðu Daníel E. Arnarsson, varaþingmaður VG og framkvæmdastjóri Samtakanna 78, og Elva Hrönn Hjartardóttir, fyrrverandi meðlimur stjórnar Vinstri grænna og varaformaður þeirra í Reykjavík, skilið við flokkinn.
„Ljóst er að halda þarf áfram að endurskoða kerfið“
Í ályktun sem gerð var á fundinum kemur fram að áhersla eigi að vera lögð á „mikilvægi heildstefnumótunar í málefnum innflytjanda.“ Þá er áréttað að útlendingafrumvarpið sem var samþykkt í vikunni hvorki breyti né megi tefji þá vinnu.
„Finna þarf leiðir fyrir þau sem hingað flytja til að taka fullan þátt í samfélaginu og tækifæri til að blómstra á eigin forsendum. Efla þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga enn frekar vegna þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta eins og með samræmdri móttöku flóttafólks.“
Einnig segir í ályktuninni að það sé nauðsynlegt að sveitarfélög um allt land taki þátt í samræmdri móttöku fólks á flótta og fái þannig nauðsynlegan stuðning.
„Þá fagnar fundurinn tillögum um lagabreytingar sem auka tækifæri fólks sem býr utan EES-svæðisins til að flytjast til Íslands með því að rýmka reglur um dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku fyrir þann hóp.“
Í ályktuninni er svo lýst yfir ánægju með að þjónusta við fólk með alþjóðlega vernd heyri nú undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið en þar er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður flokksins, ráðherra. Þá er talið að ýmis jákvæð skref hafi verið stigin og er ein móttökumiðstöð nefnd þar sem dæmi.
„Ljóst er að halda þarf áfram að endurskoða kerfið og tryggja að það standi betur undir auknum fjölda fólks á flótta.“