Mikil leynd hvílir jafnan yfir ferð erlendra ráðamanna til Úkraínu af augljósum ástæðum. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra verða á ferðalagi í allan dag og kvöld en þær halda til Úkraínu frá Póllandi í dag.
Megin tilgangur ferðarinnar er að ítreka áframhaldandi stuðning og samstöðu Íslands með Úkraínu í vörnum landsins gegn ólöglegri innrás Rússa. Þær Katrín og Þórdís Kolbrún eiga fund með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu og fleiri ráðamönnum landsins á morgun.

Ísland fer nú með formennsku í Evrópuráðinu og stendur fyrir stærsta leiðtogafundi sem haldinn hefur verið hér á landi í maí næstkomandi. Málefni Úkraínu verða efst á dagskráfundarins og munu Katrín og Þórdís Kolbrún ræða þátt landsins á fundinum við Zelensky. Reiknað er með tugum leiðtoga Evrópuráðsríkjanna hingað til lands dagana 16. til 17. maí þegar leiðtogafundurinn fer fram í Hörpu.
Gífurlegar öryggisráðstafanir verða vegna fundarins og hafa íslensk stjórnvöld meðal annars óskað eftir liðsinni erlendra lögregluyfirvalda vegna hans.
Dagskrá funda forsætisráðherra og utanríkisráðherra í Kænugarði á morgun liggur ekki fyrir en þeir hefjast fyrst í fyrramálið. Fréttamenn Ríkisútvarpsins eru með í för en munu deila öllu mynd - og viðtalsefni með öðrum íslenskum fjölmiðlum.