Meirihluti Umhverfis og skipulagsráðs samþykkti bókun þess efnis á fundi sínum á miðvikudag að áfram skyldi stefnt að því að hringtorgið við Hringbraut 121 í Vesturbænum myndi víkja.
Skipulag og útlit þessara T-gatnamóta er enn í vinnslu hjá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni en samþykkt var að ráðast í eftirfarandi breytingar fyrst til þess að bæta aðgengi og aðstöðu gangandi og hjólandi.

Ný gönguljós koma á Eiðsgranda vestan við innkeyrslu að Hringbraut 121, sem í daglegu tali er oft kallað JL húsið. Samhliða þessu er gert ráð fyrir því að vinstri beygjuvasi verði fjarlægður og í staðinn komi beygjuakrein. Ekki verði lengur hægt að taka vinstri beygju frá Hringbraut 121. Þá verði settar upp miðeyjur á Ánanaust en gönguþverun þar þykir ansi varasöm.
Bæjarstjóri Seltjarnarness er ósáttur við áformin og gagnrýnir samráðsleysið harðlega.
„Ég las þetta í Morgunblaðinu eins og aðrir og við erum ekki sáttir við það að svona veigamiklar breytingar sem skipta okkur máli úti á nesi varðandi samgöngur að við lesum bara um þau í fjölmiðlum. Við viljum frekar vera við borðið og hjálpa til við svona ákvarðanatöku. Þetta torg hér sem annar umferð ágætlega á að hverfa og hér eiga að koma t-gatnamót í staðinn. Vegagerðin og Reykjavíkurborg eru að vinna í þessu. Það sem okkur hugnast ekki eru enn ein ljósin hér sem tefja umferð enn frekar.“
Yfirlýst stefna meirihlutans í Reykjavík er að hægja á og draga úr umferð og skapa betra umhverfi fyrir virka ferðamáta. Þór er ekki sammála þessari nálgun á þessum stað.
„Við náttúrulega viljum ekki hægja á umferðinni. Hún er ekkert of hröð hér.“
En stefnir í meira samráð?
„Formaður borgarráðs hafði samband við mig og við hyggjumst fá okkur kaffi eftir helgina og ræða málin betur.“