Þetta segir Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður í samtali við Morgunblaðið en hún segir kostnað og þörf á fleira starfsfólki vegna flutnings Borgarskjalasafns til Þjóðskjalsafnsins ekki liggja fyrir.
Eins og stendur er ekki pláss fyrir safnkost Borgarskjalasafnsins á Þjóðskjalasafninu en til stendur að færa Þjóðskjalasafnið í stærra húsnæði. Þær fyrirætlanir eru hins vegar óháðar flutningi Borgarskjalasafnsins.
„Það hefur sem áður segir staðið yfir greiningarvinna hjá Framkvæmdasýslunni og það eru ýmsir möguleikar í kortunum. Fyrir tveimur árum var byrjað að skoða möguleika á samnýtingu á húsnæði með Borgarskjalasafni; að finna nýtt húsnæði þar sem bæði söfnin yrðu staðsett. Það er þá einn af þeim kostum sem var í skýrslu KPMG,“ segir Hrefna.
Morgunblaðið hefur eftir Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra að áætlanir séu uppi um að allt sem tengist söfnun sé á sama stað.
„Við erum með Hús íslenskunnar og Landsbókasafnið og höfum verið að velta því upp að skoða þann möguleika að Þjóðskjalasafnið flytjist á það svæði. En eins og ég segi að þá eru þetta hugmyndir sem á eftir að skoða betur. Áætla kostnaðinn. Jafnframt þarf að meta hvaða áhrif það hefur á skjalavörslu að leggja niður Borgarskjalasafnið og möguleg áhrif á landsvísu. Í þessum vinnuhópi verður a.m.k. einn héraðsskjalavörður vegna þess að þetta mál snýr líka að landsbyggðinni,“ segir ráðherra.
Hart hefur verið tekist á um lokun Borgarskjalsafns á fundum borgarráðs og sagði oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn meðal annars að það væri galið og algert óráð að loka safninu; sú aðgerð gæti haft í för með sér óafturkræfar afleiðingar og valdið miklum skaða.
Áhyggjur eru meðal annars uppi af því hvernig eftirlitshlutverki safnsins með skjalavörslu borgaryfirvalda verður sinnt.