Umboðsmaður Alþingis birti í morgun bréf sem hann sendi Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, þar sem hann hefur óskað eftir tilteknum skýringum og upplýsingum um umdeilda sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári. Umboðsmaður vísar til skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið; hann fái ekki séð að í henni sé sérstaklega fjallað um sölu á hlutum bankans til Hafsilfurs, félags í eigu Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna.
Umboðsmaður óskar meðal annars eftir því að Bjarni upplýsi og skýri hvort, og þá með hvaða hætti, reglum stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi hafi verið fullnægt að því er snertir söluna á hlutum ríkisins í bankanum.
Hilli undir almennilega rannsókn
Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar fagnar umleitan umboðsmanns.
„Þetta er bara mikið fagnaðarefni að nú sé til þess bær aðili að rannsaka þessar spurningar er lúta að starfsskyldum ráðherra sjálfs. Hvort ráðherra hafi gætt að sérstöku hæfi sínu þegar hann seldi eignarhlut í Íslandsbanka til félags í eigu föður síns, hlutir eins og hvort ráðherra hafi rakt yfirstjórnunar- og eftirlitsskyldur sínar gagnvart bankasýslunni. Ég held að nú kannski hilli undir að þessi atriði sem voru ekki undir í úttekt ríkisendurskoðunar verði loksins rannsökuð af til þess bærum aðila,“ segir Jóhann Páll.
Þá sé athyglisvert að umboðsmaður óski eftir umræddum upplýsingum aðeins þremur dögum eftir að Alþingi lauk umfjöllun um skýrslu ríkisendurskoðanda. Umboðsmaður segir raunar í tilkynningu með bréfi sínu að hann hafi „haldið að sér höndum vegna málsins“ hingað til, þar sem umboðsmaður fjalli almennt ekki um mál samtímis því sem þau eru til meðferðar hjá Alþingi.
„Ég hef reyndar lengi haldið því fram að ráðherra hafi gagngert beitt sér fyrir því að Ríkisendurskoðun tæki upp Íslandsbankamálið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða fresta því að það fari fram lögfræðileg úttekt á hans eigin störfum við söluna á Íslandsbanka. Af því að starfssvið og eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar einfaldlega tekur ekki til þessara spurninga,“ segir Jóhann Páll.