Bílstjórar eldsneytisflutningabíla tóku að streyma í birgðastöðina í Örfirisey rétt fyrir klukkan ellefu í morgun eftir að hafa lokið síðustu ferðum sínum áður en verkfall þeirra skall á klukkan tólf á hádegi. Þórður Guðjónsson forstjóri Skeljungs segir að þar með hafi öll dreifing fyrirtækisins stöðvast. Skeljungur kaupi inn eldsneyti og dreifi til orkustöðvanna og Costco ásamt fjölda fyrirtækja, verktaka og rútufyrirtækja. Áhrifa verkfallsins gæti strax.
„Það þýðir ekkert annað fyrir okkur en vera salíróleg og reyna að gera það sem við getum. Nú eru allir bílar hjá okkur úti á fullu að fylla á hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur engin stöð fallið hjá Orkunni. Costco á nóg af eldsneyti. Allir okkar viðskiptavinir sem hafa sína einkatanka og annað slíkt, það er búið að fylla allt upp í topp. Þannig að til að byrja með verður þetta í lagi. Maður heyrir af stöðvum sem eru þegar byrjaðar að falla og veit af þeim. Það styttist í að fyrsta stöðin hjá Orkunni falli eins og gengur og gerist,“ sagði Þórður um klukkan ellefu í morgun.
Hann sagðist hins vegar bíða spenntur eftir að heyra af af drifum fjölda undanþágubeiðna Skeljungs. Aðeins ein þeirra hefði fengist afgreidd og það væri til Strætó. Það væri gleðilegt að Strætó muni því ganga.
„En við bíðum eftir svari frá Eflingu varðandi fjölda annarra undanþága sem við sendum inn. Því ég sé ekki tilganginn með að til dæmis lögreglan fái undanþágu vegna þess að lögreglan er ekki að dreifa eldsneyti. Það erum við sem erum að dreifa eldsneytinu. Þannig að lögreglan þarf einhver stað til að taka eldsneytið og þeir þurfa eldsneyti á staðinn til þess að hægt sé að halda lögreglunni gangandi. Ég tala nú ekki um alla hina. Þannig að undanþága til einhvers sem er ekki að dreifa eldsneyti; ég skil ekki alveg tilganginn með því,“ segir Þórður
Undanþágubeiðnir Skeljungs miði að því að hægt verði að halda innviðum gangandi og öruggis væri gætt.
„Þetta snýr mikið að heilbrigðisstéttunum okkar. Við höfum óskað eftir því að fá að dreifa á tilteknar eldsneytisstöðvar til að halda því fólki gangandi. Læknar þurfa að komast í vinnu, Læknavaktin þarf að starfa, sjúkrabílar þurfa að ganga, heimahjúkrun þarf að vera í lagi og svo framvegis. Þannig að þetta skiptir allt gríðarlega miklu máli. Við getum ekki dælt á bílinn heima hjá þessum aðilum,“ sagði Þórður Guðjónsson forstjóri Skeljungs í viðtali við Kristínu Ólafsdóttir.
Uppfært klukkan 13:37
Nokkrar undanþágubeiðnir Skeljungs vegna dreifingar til flugvalla hafa verið samþykktar. Sjá tilkynningu að neðan:
Undanþágubeiðnir Skeljungs vegna dreifingar til flugvalla samþykktar
Skeljungur hefur fengið undaþágubeiðnir fyrir dreifingu eldsneytist í almannaþágu til eftirfarandi aðila samþykktar af hálfu undanþágunefnd Eflingar:
- Dreifing á JET A-1 á innanlandsflugvelli
- Dreifing á díesel á Reykjavíkurflugvöll
- Dreifing á díesel á Keflavíkurflugvöll
Þá hafa eftirfarandi beiðnir um undanþágur einnig verið veittar:
- Dreifing á díesel á einkatanka Strætisvagna
- Dreifing á díesel á varaaflsstöðvar
- Dreifing á díesel og bensín á bensínstöð Hreyfils í Fellsmúla
Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs;
„Hluti þeirra undanþágubeiðna sem við sendum hafa nú verið afgreiddar en við bíðum svara við nokkrum beiðnum ennþá. Við erum ánægð með góðar undirtektir af hálfu Eflingar gagnvart þeim undanþágubeiðnum sem við höfum fengið samþykktar, með því móti er öryggi og almannaheill betur tryggð við krefjandi aðstæður.“