Fjallað var um það í fréttum Stöðvar 2 að fiskimjölsverksmiðjur hafa undanfarnar vikur mátt þola skerðingar á raforku, þó minnst yfir nóttina.
„Við erum núna að keyra bæði á rafmagni og olíu. Við erum ennþá að kljást við einhverjar skerðingar,“ segir Garðar Svavarsson, formaður Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda.
Verksmiðjurnar, sem eru tíu talsins í landinu, hafa einkum verið að vinna úr kolmunna síðustu vikur en eru núna að sigla inn í loðnuvertíðina.

„Álagið er búið að vera svo mikið á kerfið, svona yfir daginn, þá hefur þurft að skerða skerðanlega notendur. Þannig að þetta er staðreynd. En við vonum nú að það sé að draga úr þessu,“ segir Úlfar Linnet, forstöðumaður viðskiptaþjónustu Landsvirkjunar.
-Eru það vonbrigði að þurfa að keyra á olíu?
„Það eru alltaf vonbrigði að þurfa að keyra á olíu,“ svarar Garðar.
Í fyrra var ástandið skýrt með lélegri vatnsstöðu í lónum. Núna er staðan þar allt önnur og betri. Samt þarf að skerða.
„Það er búið að vera mikil eftirspurn eftir raforku á Íslandi. Og eins og staðan er núna, þá erum við allavega mjög nálægt því að vera uppseld,“ segir Úlfar.

Talsmaður fiskimjölsframleiðenda treystir sér ekki til að nefna tölur um hve mikilli olíu sé verið að brenna.
„Þegar verksmiðjurnar þurfa að keyra á fullu á olíu, þá fer gríðarlegt magn. En við erum að ná að nýta rafmagnið með núna. Þannig að þetta er ekki eins og það var í fyrra,“ segir Garðar.
Viðskiptastjóri Landsvirkjunar bendir á að rafvæðing fiskimjölsverksmiðjanna hafi til þessa sparað gríðarlega olíunotkun.
„Við höfum afhent, held ég, fjórar teravattstundir frá aldamótum, sem held ég að samsvari 277 þúsund tonnum af olíu, sem hafa þá sparast.
Maður getur svolítið horft á þetta eins og tvinnbíl. Þannig að bræðslurnar eru svolítið eins og tvinnbíll sem hefur keyrt meira en níu af hverjum tíu ferðum á rafmagni,“ segir Úlfar.

-En er þetta komið til með að vera, svona ástand, að þið þurfið alltaf að skipta yfir í olíuna?
„Nei. Við erum að vinna að breyttu fyrirkomulagi með Landsvirkjun, sem á að tryggja það að verksmiðjurnar geti verið með rafmagnið, fyrst og fremst,“ svarar formaður félags fiskimjölsframleiðenda.
-Er kjarni málsins kannski sá að það þarf að virkja meira?
„Eftirspurnin er að aukast. Þannig að ef við ætlum að mæta henni, þá er það leiðin sem þarf að fara,“ svarar forstöðumaður viðskiptaþjónustu Landsvirkjunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: