Háskóli Íslands hefur frá upphafi skólaárs þurft að draga úr ýmissi grunnþjónustu vegna fjárskorts, sem er meðal annars tilkomin vegna fækkunar nemenda síðan samkomutakmörkunum var létt eftir Covid-faraldurinn.
„Við þurftum að fara í aðgerðir til að geta haldið starfinu áfram með eins eðlilegum hætti og mögulegt er,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
„Við erum ekki í góðum málum. Við höfum verið að leggja upp áætlun fyrir þetta ár og við sjáum að það vantar allt að milljarð til að endar nái saman.“
Fræðasviðin séu sum í sérstaklega slæmum málum.
„Það vantar fimm hundruð milljónir upp á að endar nái saman þar. Heilbrigðisvísindasvið stendur eiginlega verst og það er einmitt verið að kalla eftir fleiri nemendum inn í heilbrigðisvísindin og það þarf virkilega að efla það. Við höfum átt í samtali við stjórnvöld um það. Þar er hallinn upp á 240 milljónir,“ segir Jón Atli.
„Það eru aðgerðir þar í gangi og verið að ganga á uppsafnaðan afgang frá fyrri árum. Síðan er Menntavísindasvið, þar sem nemendum hefur reyndar fjölgað á síðustu árum, sem stendur ekki vel.“
Útlitið sé svart fyrir næsta ár verði engu breytt.
„Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur, ekki bara af þessu ári heldur 2024, vegna þess í fjármálaáætlun eins og hún er núna er verið að tala um enn frekari niðurskurð. Held ég upp á 2,2 prósent fyrir Háskóla Íslands. Þetta gildir yfir allt kerfið. Svo við þurfum að snúa bökum saman og efla fjármögnun háskólastigsins.“