Um klukkan 20 í gærkvöldi barst tilkynningu um að eldur væri í gámi í verslunarkjarnanum Spönginni í Grafarvogi. Dælubíll var sendur á vettvang ásamt áhöfn sem gekk greiðlega að slökkva í gámnum þrátt fyrir að um mikinn eld væri að ræða. Gámurinn var fullur eldfimum pappa.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var lítil sem engin hætta á ferð enda eldurinn einungis í gámnum sem stóð fjærri byggingum og bifreiðum.
Hann segir ljóst að um íkveikju hafi verið að ræða enda kvikni almennt ekki í gámum af sjálfsdáðum á laugardagskvöldum. Aðra sögu væri hugsanlega að segja ef eldurinn hefði komið upp að degi til í miðri viku þegar menn eru líklegri til þess að henda úrgangi sem gæti kviknað í.
Kviknaði í á sama stað skömmu seinna
Sem áður segir gekk greiðlega að slökkva eldinn í gámnum en það reyndist skammgóður vermir þar sem eldur kom upp í öðrum gámi í Spönginni aðeins tveimur klukkustundum síðar. Líklegt er að þar hafi brennuvargar aftur verið á ferð en að sögn varðstjóra er ekki útilokað að kviknað hafi í út frá hitaleiðni frá fyrri gámnum.
Vísir hefur undir höndum myndskeið sem sýna eldinn í seinni gámnum og aðgerðir slökkviliðs á vettvangi. Þau má sjá klippt saman í spilaranum hér að neðan:
Gámur í Laugardal og ruslatunna í Hafnarfirði
Einnig var kveikt í gámi við Vogaskóla í Laugardal. Þar var ekki heldur hætta á ferð og slökkvistarf gekk vel. Loks barst útkall vegna logandi ruslatunnu í Hafnarfirði, hið sama var uppi á teningnum þar.
Grunur er um íkveikju í öllum framangreindum tilfellum. Líkt og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan mætti lögregla á vettvang í Spöngina. Að sögn varðstjórans mætir lögregla ávallt á vettvagn þegar um bruna er að ræða en að íkveikjurnar verði sennilega ekki rannsakaðar frekar þar sem engin hætta var á ferð.
Í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er ein tilkynning um eld í ruslagámi í Grafarvogi bókuð.
Að lokum segir varðstjórinn að slökkviliðið hafi sinnt einu útkalli til í nótt. Undir morgun kom upp leki í úðakerfi sem slökkvilið sinnti.