Keflavík byrjaði á að tapa fyrstu fjórum leikjum Bestu deildarinnar síðasta sumar en rifu sig í kjölfarið upp og voru hársbreidd frá því að enda í efri hlutanum. Að loknum 22 leikjum var liðið með 28 stig og svo 37 stig að loknum 27 leikjum.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þarf Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari liðsins, og þau sem um leikmannakaup sjá í Keflavík að vera í yfirvinnu eftir áramót ætli liðið sér að vera samkeppnishæft næsta sumar. Sem stendur hafa níu leikmenn sem komu við sögu í Bestu deildinni 2022 yfirgefið liðið.
— Oddur Gunnarsson Bauer (@oddurbauer) December 23, 2022
Adam Árni Róbertsson átti ekki fast sæti í byrjunarliðinu en kom við sögu í flestum leikjum liðsins. Hann hefur samið við Þrótt Vogum í 2. deildinni. Adam Ægir Pálsson var einn besti leikmaður Keflavíkur á síðustu leiktíð en hann er snúinn aftur í Víkina eftir að hafa verið á láni.
Dani Hatakka var fastamaður í vörn liðsins, eins og kom fram hér að ofan er hann farinn í FH. Ivan Kaliuzhnyi, miðjumaður frá Úkraínu, kom aðeins við sögu í sex leikjum liðsins en Sigurður Ragnar bar honum vel söguna og sagði hann hafa breytt leik liðsins til hins betra.
Framherjinn Joey Gibbs er farinn í Stjörnuna og vængmaðurinn Kian Williams er farinn til Kanada. Íslandsmeistarar Breiðabliks keyptu Færeyinginn fljúgandi, Patrik Johannesen, fyrir dágóða summu sem ætti að nýtast til að styrkja hópinn.
Rúnar Þór Sigurgeirsson, vinstri bakvörðurinn spjaldaglaði, samdi við Öster sem spilar í sænsku B-deildinni. Jafnframt samdi Sindri Kristinn Ólafsson, aðalmarkvörður liðsins og einn af dyggustu þjónum Keflavíkur undanfarin ár, við FH.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með leikmannamálum Keflavíkur eftir áramót en það ætti að vera líf og fjör á skrifstofu knattspyrnudeildar þangað til Besta deildin fer af stað næsta vor.