Eftirminnileg innkoma Aboubakars í einum besta leik mótsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vincent Aboubakar breytti leik Kamerún og Serbíu.
Vincent Aboubakar breytti leik Kamerún og Serbíu. getty/Clive Mason

Vincent Aboubakar átti eftirminnilega innkomu þegar Kamerún gerði 3-3 jafntefli við Serbíu í G-riðli heimsmeistaramótsins í Katar í dag.

Aboubakar kom inn á sem varamaður skömmu eftir að Serbía komst í 1-3. Skömmu síðar minnkaði hann muninn í 2-3 og hann lagði svo upp mark fyrir Eric Maxim Choupo-Moting.

Bæði lið eru með eitt stig í G-riðlinum. Í lokaumferð hennar mætir Serbía Sviss en Kamerún Brasilíu.

Aleksandar Mitrovic byrjaði leikinn af miklum krafti og fékk þrjú fín færi á fyrstu sautján mínútum leiksins. Fyrst skallaði hann yfir, átti svo skot í stöng og loks skot rétt framhjá.

Kamerún náði hins vegar forystunni á 29. mínútu þegar Jean-Charles Castelletto skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Sergej Milinkovic-Savic fagnar marki sínu.getty/Stu Forster

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks snerist leikurinn á haus. Fyrst jafnaði Strahinja Pavlovic með skalla eftir aukaspyrnu Dusans Tadic og svo skoraði Sergej Milinkovic-Savic með skoti fyrir utan vítateig eftir að Kamerúnar töpuðu boltanum klaufalega. Aðeins tvær mínútur liðu milli markanna.

Á 53. mínútu rak Mitrovic smiðshöggið á frábæra sókn Serbíu og kom liðinu í 1-3. Tveimur mínútum síðar kom Aboubakar inn á sem varamaður og hann breytti leiknum.

Á 64. mínútu slapp hann í gegnum vörn Serbíu og vippaði boltanum laglega yfir Vanja Milinkovic-Savic. Aboubakar var bara rétt að byrja því tveimur mínútum síðar slapp hann aftur í gegnum vörn Serba. Að þessu sinni lagði hann boltann til hliðar á Choupo-Moting sem jafnaði í 3-3.

Serbar sóttu stíft undir lokin en tókst ekki að skora sigurmarkið. Lokatölur 3-3 í einum besta leik HM til þessa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira