Fótbolti

Brann slapp inn í umspilið eftir hjálp frá öðrum velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfarei Brann, fagnaði í leikslok þrátt fyrir tap á móti Sturm Graz í kvöld.
Freyr Alexandersson, þjálfarei Brann, fagnaði í leikslok þrátt fyrir tap á móti Sturm Graz í kvöld. Getty/Jurij Kodrun

Fjögur Íslendingalið komust áfram í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar en lokaumferðin fór fram í kvöld. Midtjylland, Lille, Panathinaikos og Brann verða með þegar úrslitakeppnin fer fram en þrjú þeirra síðastnefndu fara í umspilið um sæti í sextán liða úrslitum.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann töpuðu 1-0 á móti Sturm Graz og voru á leiðinni úr keppni þegar Stuttgart kom þeim til bjargar með því að vinna Young Boys 3-2 á sama tíma. Chema Andres skoraði sigurmark Stuttgart á 90. mínútu og það felldi svissneska liðið úr keppni og kom Brann upp í 24. og síðasta sætið.

Lille komst áfram með 1-0 sigri á þýska liðinu Freiburg. Olivier Giroud skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á annarri mínútu í uppbótartíma. Hákon Arnar Haraldsson lék allan leikinn en Lille var manni fleiri síðustu sextán mínúturnar. Lille fékk tólf stig og endaði í átjánda sæti.

Midtjylland kórónaði frábæra Evrópukeppni og tryggðu sér þriðja sætið í deildinni með 2-0 heimasigri á króatíska félaginu Dinamo Zagreb. Elías Rafn Ólafsson var í marki Midtjylland og hélt hreinu. Aral Simsir (á 49. mínútu) og Victor Bak (á 75. mínútu) skoruðu mörk liðsins.

Lyon varð í efsta sætinu og Aston Villa tryggði sér annað sætið með 3-2 endurkomusigri á Salzburg. Salzburg komst í 2-0 en Morgan Rogers og Tyrone Mings jöfnuðu metin og Jamaldeen Jimoh skoraði sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok.

Sverrir Ingi Ingason og félagar í Panathinaikos gerðu 1-1 jafntefli við Roma á heimavelli. Sverrir var í miðri vörninni og Vicente Taborda skoraði mark liðsins á 58. mínútu. Roma missti Gianluca Mancini af velli með rautt spjald á 15. mínútu en tókst að jafna metin með marki Jan Ziolkowski á 80. mínútu. Panathinaikos endaði í 20. sætinu. Roma tryggði sig beint inn í sextán liða úrslitin með þessu jöfnunarmarki.

Daníel Tristan Guðjohnsen og Arnór Sigurðsson voru í byrjunarliði Malmö sem tapaði 2-1 á heimavelli á móti Genk en sænska landsliðið átti ekki möguleika á því að komast áfram.

Nottingham Forest vann 4-0 heimasigur á Ferencvaros. Fyrsta markið var sjálfsmark en Igor Jesus skoraði síðan tvö mörk og það síðasta skoraði James McAtee úr víti. Forest endaði í þrettánda sæti.

Lyon, Aston Villa, Midtjylland, Real Betis, Porto, Freiburg og Roma tóku átta fyrstu sætin sem skila þeim fram hjá umspilinu og beint inn í sextán liða úrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×