Erlent

Yfir­völd í Kína hafa engan á­huga á af­léttingum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Sóttvarnaaðgerðir hafa verið umfangsmiklar í Kína síðan faraldurinn hófst.
Sóttvarnaaðgerðir hafa verið umfangsmiklar í Kína síðan faraldurinn hófst. Feature China/Future Publishing via Getty Images

Kínversk yfirvöld hafa ekki áhuga á því að aflétta samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins í bráð. Sýnatökur, sóttkví og lokanir eru enn daglegt brauð í Kína.

Heilbrigðisyfirvöld birtu tilkynningu fyrr í dag þar sem fram kom að alls ekki yrði vikið frá gildandi sóttvarnartakmörkunum. Vangaveltur höfðu verið uppi síðustu daga um að til stæði að slaka á reglunum. Nú er ljóst að svo verði ekki.

Umræða um minni takmarkanir leiddu til mikillar hækkunar á kínverskum hlutabréfamörkuðum í vikunni. Yfirmaður heilbrigðismála í Kína var fljótur að leiðrétta orðróminn og segir hann af og frá. Áframhaldandi samkomutakmarkanir væru hið besta í stöðunni fyrir þjóðina og að fólk væri hvatt til að bólusetja sig. Meginreglan væri að setja líf fólks í fyrsta sæti. Guardian greinir frá.

Tæplega fjögur þúsund greindust smitaðir af Covid í Kína á föstudaginn. Í borginni Guangzhou, sem er í suðausturhluta landsins, lágu almenningssamgöngur niðri að hluta í þrjá daga í vikunni, á meðan tæpar tvær milljónir manna voru sendar í sýnatökur. 

Þá var Disney-þemagarðinum í Sjanghæ lokað tímabundið í síðustu viku vegna veirunnar og gestir sátu fastir inni. Þeim var tilkynnt að þeir fengju ekki að fara fyrr en þeir hefðu fengið neikvæðar niðurstöður úr skimun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×