Viðskiptatímaritið Forbes segir að gögn sem það hefur undir höndum sýni að innrieftirlitsdeild Bytedance, móðurfélags Tiktok, hafi ætlað sér að nota snjallforritið til þess að fylgjast með staðsetningu ákveðinna bandarískra borgara. Deildin rannsaki aðallega mögulegt misferli núverandi og fyrrverandi starfsmanna fyrirtækisins. Í að minnsta kosti tveimur tilfellum höfðu Bandaríkjamennirnir sem hún ætlaði að fylgjast með aldrei unnið fyrir Bytedance.
Óljóst er sagt hvort að gögnunum hafi á endanum verið safnað en ætlunin hafi verið að deildin, sem er staðsett í Beijing í Kína, nálgaðist staðsetningargögn úr snjalltækjum bandarísku notendanna. Forbes vill ekki gefa upp tilgang njósnanna til þess að vernda leynd heimildarmanna sinna.
Hvorki Tiktok né Bytedance svaraði spurningum tímaritsins um hvort til hafi staðið að fylgjast með bandarískum embættismönnum, aðgerðarsinnum, blaðamönnum eða opinberum persónum.
Tiktok er orðið einn vinsælasti samfélagsmiðill heims þrátt fyrir áhyggjur bandarískra stjórnvalda af því að forritið gæti ógnað þjóðaröryggi. Þau óttast að kínversk stjórnvöld komist í persónuupplýsingar bandarískra borgara sem samfélagsmiðillinn safnar í hrönnum.
Með samkomulagi sem Tiktok vinnur að við bandaríska fjármálaráðuneytið er fyrirtækið sagt þurfa að tryggja að starfsmenn þess í Kína hafi ekki aðgang að vissum persónuupplýsingum um bandaríska notendur.