Sameiginleg heræfing Bandaríkjahers og Suður-Kóreu fór fram um helgina og sagði varnamálaráðuneyti Norður-Kóreu æfingarnar valda usla. Eldflaugaskot í æfingaskyni væri fullkomlega réttlætanlegt. AP fréttaveitan greinir frá.
Toshiro Ino, staðgengill varnarmálaráðherra Japans, segir tilraunirnar óásættanlegar. Til skoðunar sé hvort eldflaugunum hafi verið skotið úr kafbáti, sem valdi áhyggjum, enda erfiðara að greina slík eldflaugaskot á ratsjám.
Tæp vika er síðan Norður-Kóreumenn skutu langdrægri eldflaug sem flaug yfir Japan. Íbúar fengu skilaboð um að koma sér í skjól en eldflaugin lenti að lokum í Kyrrahafinu. Flaugin flaug um 4.500 kílómetra leið áður en hún hrapaði í Kyrrahafið.
Talið er að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu ekki sátt með samvinnu Japan, Bandaríkjanna og Suður-Kóreu en þjóðirnar þrjár hafa í sameiningu unnið að því að styrkja bandalag sitt vegna ástandsins í Norður-Kóreu.